131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Námskrá grunnskóla.

472. mál
[12:09]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Ég heyri að hæstv. ráðherra hefur í hyggju að færa verulegt nám frá framhaldsskólastiginu yfir á grunnskólastigið í framtíðinni. Ég get verið sammála því að hægt sé að auka við námið í grunnskólunum frá því sem verið hefur en slík aukning mun að sjálfsögðu hafa mikil áhrif á starf grunnskólanna, starf kennaranna og ekki síst kostnað sveitarfélaganna við að reka grunnskólana. Við breytingarnar þarf að sjálfsögðu að hafa gott samstarf við sveitarfélögin og verður ekki við það unað af hálfu sveitarfélaganna að enn og aftur verði færð til þeirra starfsemi og kostnaður án þess að þau hafi fjármuni á móti þeim nýja kostnaði sem þannig verður til.

Ég vona því að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að samstarf og samvinna við sveitarfélögin við breytinguna verði með þeim hætti að vel verði við unað.