131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Námskrá grunnskóla.

472. mál
[12:10]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Því ber að fagna að endurskoðun námskráa standi stöðugt yfir en til að það markmið náist að aukin samfella verði á milli skólastiga og þetta verði meiri heild en nú er þarf að skýra betur hvernig standa eigi að endurmenntun kennara. Það mál hefur ekki verið til lykta leitt að því er virðist né, eins og hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi, hvernig kostnaðarhlutdeildin skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga í málinu.

Ég ítreka að ég tel vænlegan kost sem skoða eigi nú þegar vinna er að hefjast við styttingu á námstíma til stúdentsprófs hvort ekki sé verið að gera mistök með því að fara þá leið að stytta framhaldsskólann um eitt ár og hvort ekki sé miklu meira svigrúm innan grunnskólans til styttingarinnar en í framhaldsskólunum þar sem hætta er á því að stúdentsprófið verði gengisfellt mjög hressilega og fjölbreytileiki framhaldsskólanna hverfi að verulegu leyti þannig að svigrúmið sé miklu meira innan grunnskólanna. Nú þegar verið er að endurskoða námskrár og tilflutning á fögum á milli skólastiga er spurning hvort ekki sé miklu einfaldara og farsælla að fara þá leið að stytta grunnskólann eins og ég hef nefnt og sannfærandi raddir úr skólasamfélaginu hafa bent á á síðustu vikum og mánuðum.

Að lokum vil ég aftur ítreka mikilvægi þess að endurskoða námskrána í heild með það að markmiði að auka valfrelsi nemenda og vægi verk- og listgreina. Það er mjög mikilvægt og kemur fram í máli þeirra sem best til þekkja innan skólanna. Ég held að þeir sem hafa það með höndum að endurskoða námskrána ættu að hafa það að leiðarljósi að auka vægi þeirra greina og valfrelsi og sveigju skólanna til að standa að málum með sínum hætti.