131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Símenntunarmiðstöðvar.

573. mál
[12:20]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Það er alveg til skammar hvernig stutt er við bakið á flestum þessara símenntunarmiðstöðva á Íslandi. Fjárlaganefnd úthlutar árlega sömu upphæð til hverrar þessara stöðva, síðan bætir ráðuneytið í hjá stöðvunum fyrir austan og á Vestfjörðum. Aðrar stöðvar sitja uppi með það framlag sem kemur beint frá fjárlaganefnd og ráðuneytið kemur þar hvergi nærri, virðist vera. Ég fullyrði að þetta er langhagkvæmasti kosturinn sem við getum boðið upp á til sí- og endurmenntunar þeirra sem á þurfa að halda. Það er í raun alveg ótrúlegt að framlög til þessara stöðva séu á engan hátt háð umfangi þeirra, fjölda nemenda, þeirri starfsemi sem þar fer fram, heldur er eingöngu ein upphæð, ein krónutala, á hverja stöð á ári.

Það er hæstv. menntamálaráðherra algjörlega til vansa hve langan tíma hefur tekið að taka á málefnum þessara stöðva og að ekki skuli vera búið að gera samninga við stöðvarnar sem háðir eru umfangi og þeirri starfsemi sem þar fer fram.