131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði.

488. mál
[12:28]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þann 15. mars 2003 samþykkt Alþingi þingsályktun um að spornað yrði við uppsögnum og mismunun í starfi vegna aldurs. Þingsályktunartillagan var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna á hvern hátt unnt er með lagasetningu að sporna við því að fólk sé látið gjalda aldurs á vinnustað, hvort heldur er með uppsögnum eða mismunun í starfi. Skipuð verði nefnd þar sem fulltrúar samtaka launafólks eigi aðild auk fulltrúa stjórnmálaflokka á þingi og skili nefndin áliti innan eins árs.“

Nefndin var skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka með aðild aðila vinnumarkaðarins. Skemmst er frá því að segja að full samstaða náðist í nefndinni um að ráðist yrði í fimm ára verkefni til að styrkja stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði, m.a. að skipuð yrði sjö manna verkefnisstjórn fyrir verkefnið til að fylgja átakinu eftir. Átti sú verkefnisstjórn að vera með aðild fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Í þessu átaki fólst m.a. að ráðinn yrði starfsmaður í a.m.k. 20% stöðuhlutfall og að lögð yrði fyrir félagsmálaráðherra aðgerðar- og kostnaðaráætlun til fimm ára. Átaksverkefnið miðar m.a. að því að stuðla að auknu fræðslustarfi, rannsóknum, áætlunum um hvernig markvisst væri hægt að hafa áhrif á það að breyta viðhorfi til miðaldra fólks á vinnumarkaði, áherslu á starfsmenntun, sí- og endurmenntun og leggja átti sérstakt fjármagn til starfsmenntasjóðs sem rynni í átak í starfs- og endurmenntunarmálum miðaldra og eldri starfsmanna á vinnumarkaði.

Nefndin klofnaði þó í afstöðu sinni til þess hvort setja ætti lög eða ekki. Skiptist nefndin þannig að fulltrúar fjármálaráðuneytisins og vinnuveitenda lögðust gegn því að sett yrðu nokkur lög eða innleidd yrði í íslensk lög tilskipun Evrópusambandsins nr. 278 um jafna meðhöndlun í atvinnu og starfi. Fulltrúar Framsóknarflokksins í nefndinni studdu að innleidd yrði í íslensk lög sú tilskipun Evrópusambandsins sem ég nefndi áðan en vildu ekki almenna lagasetningu um efnið. Fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni, sú sem hér stendur, og fulltrúi Vinstri grænna ásamt BSRB og ASÍ lögðu til að sett yrði löggjöf um efnið.

Ég spyr því m.a. ráðherra, og hef ekki tíma til að fara yfir fjóra liði fyrirspurnarinnar, hvort ráðherra sé reiðubúinn að beita sér fyrir rammalöggjöf gegn mismunun í starfi og á vinnumarkaði vegna aldurs, eins og við, fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, ASÍ og BSRB, lögðum til. Hversu miklu fjármagni verður varið til þessa verkefnis?