131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði.

488. mál
[12:36]

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Það gerist æ algengara að miðaldra og eldra fólki með langan starfsaldur sé sagt upp og yngra starfsfólk ráðið í staðinn, öllu heldur má segja að það haldi fremur störfum sínum. Að baki þessu liggja uppsagnarreglur á Íslandi þar sem leyndin ein ríkir yfir öllu.

Hér hefur verið lagt fram frumvarp af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um breytingar á lögum um uppsagnarfrest, hæstv. félagsmálaráðherra kallaði eftir hugmyndum þar að lútandi. Þar er kveðið á um það að uppsögn skuli vera skrifleg, rökstudd og málefnaleg og miðast við mánaðamót. Verði þetta frumvarp að lögum mun það taka á þeim vanda þegar fólki er mismunað vegna aldurs eða annarra ástæðna. Þar sem hæstv. ráðherra taldi sig opinn fyrir hugmyndum varpa ég fram þeirri spurningu hvaða afstöðu hann mundi taka til skriflegra rökstuddra uppsagna sem hvarvetna tíðkast í löndum sem við berum okkur saman við, Norðurlöndum og alls staðar. Eingöngu hér á Íslandi er svo ekki.