131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði.

488. mál
[12:42]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu, þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa málinu og þá vinnu sem hún lagði á sig í þeirri nefnd sem hér hefur komið til umfjöllunar.

Hér hefur innleiðing tilskipunar Evrópusambandsins gegn mismunun í starfi verið gerð að mesta umfjöllunarefninu. Eins og ég sagði áðan koma ýmsar leiðir til greina í því efni. Eins og hv. þingmaður hefur ítrekað bent á þríklofnaði þó ekki stærri nefnd í afstöðu sinni til þessa viðfangsefnis. Ég hef ekkert útilokað í því efni með hvaða hætti við gerum þetta og ég hef áður lýst því yfir úr þessum ræðustól að mér finnst ástæða til að taka upp mörg meginefni tilskipunarinnar í íslensk lög. Hvort við gerum það með rammalöggjöf eða með endurskoðun gildandi laga veit ég ekki enn. Í mínum huga kemur hvort tveggja til greina og eins og ég sagði áðan finnst mér alls ekki útilokað að verkefnisstjórnin setji einmitt fram hugmyndir í því efni með hvaða hætti best er að koma þessu við.

Það sem mér finnst, hæstv. forseti, skipta hér mestu máli er að við erum farin að vinna gegn þessum vágesti í íslensku atvinnulífi sem er slök staða eldra fólks á vinnumarkaði. Um það erum við sammála hér. Ég held að við getum líka verið sammála um að það er ástæða til að taka á í þeim efnum. Til þess þarf nokkurt fjármagn eins og hv. þingmaður hefur bent á. Starfsmenntasjóður félagsmálaráðuneytisins getur komið þar að og fleiri slíkir sjóðir. Og ég vil ekki útiloka að í fjárlögum næsta árs sjáist þess merki að við ætlum að taka hér á.