131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þjónustusamningur við Sólheima.

596. mál
[12:47]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Þegar sá sem hér stendur kom að málefnum Sólheima í félagsmálaráðuneytinu vorið 2003 var ljóst að höggva þyrfti á þann hnút sem skapast hafði í samskiptum ráðuneytisins og Sólheima. Sjálfseignarstofnunin Sólheimar hefur annast þjónustu við fatlaða frá árinu 1930. Var þar um að ræða upphaf þjónustu við fatlað fólk á Íslandi. Þar var unnið einstakt brautryðjendastarf á sínum tíma sem að sjálfsögðu hefur þróast og mun þróast enn frekar í framtíðinni. Það er mat mitt að fjölbreytni í þjónustu við fatlaða sé mikilvæg og til þess fallin að tryggja sem flestum þjónustu við hæfi. Ljóst er að Sólheimar eru hluti af þeirri fjölbreyttu flóru.

Sá þjónustusamningur sem undirritaður var 8. maí sl. var gerður á grundvelli heimildar í 14. gr. laga um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, og 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997. Vert er að undirstrika að hér er um heimildarákvæði að ræða til gerðar þjónustusamnings. Gerð samningsins við Sólheima hafði það að markmiði að tryggja enn frekar þá þjónustu við fatlaða sem kveðið er á um í lögum nr. 59/1992. Auk þess er með honum tryggð fjölbreytni í þjónustu við fatlaða og samskipti ráðuneytisins og Sólheima færð til betri vegar. Þjónustusamningurinn kveður á um þjónustu við 40 fatlaða einstaklinga.

Við gerð nýs samnings tók ráðuneytið m.a. tillit til þeirra leiðbeininga Ríkisendurskoðunar sem við áttu og var þjónustusamningurinn staðfestur af fjármálaráðuneyti. Ríkisendurskoðun bendir m.a. á að nauðsynlegt sé að þjónustumat verði framkvæmt eins og kveðið er á um í 47. gr. laga um málefni fatlaðra. Í aðdraganda umrædds þjónustusamnings við Sólheima framkvæmdi svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Suðurlandi í samráði við starfsfólk Sólheima og íbúa, mat á þjónustuþörf íbúanna og liggur það til grundvallar greiðslum til Sólheima eins og kemur fram í núgildandi samningi. Hér er um veigamikið atriði að ræða fyrir þá fötluðu einstaklinga sem búa á Sólheimum þar sem í samningnum er hnykkt á því ákvæði laga um málefni fatlaðra að viðkomandi svæðisskrifstofa framkvæmi reglulega á mat á þörf þeirra fyrir þjónustu. Svæðisráði er sömuleiðis falið eftirlit með framkvæmd samningsins.

Í öðru lagi má nefna að í núgildandi samningi er skilgreint hvernig þeirri fjárhæð sem þjónustusamningurinn kveður á um skuli ráðstafað. Skilgreind eru skýr meginmarkmið með samningnum, hvaða þjónustu Sólheimum er skylt að veita, hvernig skuli farið með þjónustumat og hvernig fjármunum skuli varið í þágu ákveðinna þjónustuþátta, þar með talið hlutfall launakostnaðar og annars kostnaðar, af heildarframlagi ríkisins.

Í athugasemdum Ríkisendurskoðunar er í þriðja lagi bent á að skortur á starfsfólki, einkum með fagmenntun á sviði þroskahömlunar, hái starfseminni. Í þjónustusamningi félagsmálaráðuneytisins við Sólheima er gerð sú krafa að Sólheimar leitist við að ráða til starfa fólk með víðtæka reynslu, menntun og þekkingu sem nýtist við störf í þágu fatlaðra. Einnig er samningurinn uppsegjanlegur með tólf mánaða fyrirvara miðað við áramót sé það mat samningsaðila að af einhverjum ástæðum geti þeir ekki staðið við skuldbindingar sínar og það leiði til verulegrar röskunar á þjónustu á Sólheimum. Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að félagsmálaráðuneytið hefur ekki aðstöðu eða heimild til að krefjast þess lögum samkvæmt að samsetning starfsfólks á vinnustað eins og Sólheimum sé með tilteknum hætti.

Hin almenna hugmyndafræði á Íslandi og sú hugmyndafræði sem nágrannaþjóðir okkar vinna eftir byggir á grunnreglum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett um þátttöku fatlaðra og þeim skuli tryggt aðgengi að samfélaginu. Innan þeirra hugmynda geti rúmast fjölbreytileg lífsform svo lengi sem grundvallarhugmyndir um mannréttindi og virðingu séu í heiðri hafðar í hvívetna. Félagsmálaráðuneytið hefur í hyggju að styrkja það trúnaðarmannakerfi sem starfrækt er í málaflokki fatlaðra með það að markmiði að tryggja að ávallt séu virt almenn mannréttindi til handa fötluðum. Hér er um almenna aðgerð að ræða í þjónustu við fatlaða og munu íbúar á Sólheimum að sjálfsögðu njóta afraksturs þess starfs eins og aðrir fatlaðir á landsvísu.

Hæstv. forseti. Það er vilji minn að sífellt sé unnið að því að auka lífsgæði fatlaðra íbúa á Sólheimum sem og annarra fatlaðra á landsvísu og vissulega má alltaf bæta hlutina. Það vitum við öll. Ég hef sem félagsmálaráðherra lagt mikla áherslu á málaflokk fatlaðra og ber mikla virðingu fyrir þeim hópi og þeim sem starfa fyrir fatlaða og með þeim. Það er sannfæring mín að gott starf hafi verið unnið að Sólheimum og það er vissulega mitt hlutverk að tryggja að svo verði í framtíðinni og undan þeirri ábyrgð mun ég ekki skorast.