131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þjónustusamningur við Sólheima.

596. mál
[12:53]

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Allt frá því að hin mikla baráttukona frú Sesselja kom frá Þýskalandi fyrir um 80 árum með þá merkilegu hugmyndafræði sem Sólheimar standa fyrir má segja að ávallt hafi staðið miklar deilur um starfsemina sem þar fer fram og er þetta ekki í fyrsta sinn sem málið kemur til umræðu á Alþingi. Í 80 ára sögu þessa samfélags hafa deilur um hugmyndafræðina að baki Sólheimum staðið yfir. Það er hugmyndafræðin að leggja eingöngu áherslu á hina fötluðu, sem hljóta auðvitað alltaf að vera í forgrunni, og það er líka hugmyndafræði vistfræðinnar. Það er samfélagið í heild sinni á Sólheimum sem hugmyndafræði frú Sesselju byggir á. Um það hafa verið deilur. Ég fagna því að sú harka sem hlaupin var í málið virðist hafa losnað fyrir frumkvæði núverandi félagsmálaráðherra en vitaskuld þarf að hafa eftirlit með því hvernig fjármunum er varið, hvernig fé er nýtt en ekki síst að horfa á hagsmuni skjólstæðinganna, íbúanna í samfélaginu.