131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þrífösun rafmagns.

575. mál
[13:10]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er engin ástæða til að lengja mikið umræðuna hér með því að ræða um þá miklu þörf sem er á því að þrífösun verði í sveitum landsins þar sem atvinnurekstur er stundaður. En úr því að til er orðin þessi forgangsröðun og menn vita hvert á að stefna í þessu er hins vegar ástæða til þess að kvarta yfir því að engin áætlun er orðin til.

Ég verð því miður að skilja orð hæstv. ráðherra öðruvísi en hv. síðasti ræðumaður. Þessar 650 milljónir sem ráðherrann nefndi voru í endurbætur á kerfinu, meðal annars með þrífösun í huga, og það kom ekkert fram um það hve stór hluti af þessu væri að fara í þrífösun. Þess vegna er ástæða til að hér liggi fyrir, ekki síst með tilliti til þess að menn stefna til breytinga í þessu raforkukerfi, fastmótuð áætlun um það hvernig eigi að koma til móts við þarfir atvinnulífs í sveitum hvað varðar þrífösun rafmagns.