131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þrífösun rafmagns.

575. mál
[13:11]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt þá var óskað upplýsinga frá sveitarfélögunum í landinu um hvar væri brýn þörf fyrir þrífösun á rafmagni og að út úr því hefði komið að það mundi kosta um 1.200 milljónir að ráðast í þær brýnu endurbætur.

En hæstv. ráðherra sagði síðar í ræðu sinni að þær 1.200 milljónir mundu engu skila þó að þær yrðu settar í framkvæmdir og ég skil ekki hvernig í ósköpunum þetta getur snúist svona.

Þær 650 milljónir í endurbætur á dreifikerfi Rariks segja ekkert um hvað eigi að fara í þrífösun á rafmagni og ég ítreka þá spurningu sem hér kom fram: Hve mikið af þeim fjármunum á að fara í þrífösun?

Eins og hæstv. ráðherra talaði hér virðist mér að núna sé hægt þá að óska eftir upplýsingum frá Rarik um hvaða framkvæmdir í þrífösun séu næstar, hvar þær eigi að verða, í hvaða tímaröð verði síðan framkvæmdir við þrífösun og hvaða tímarammi gildi. Ég gat ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi en að þetta lægi orðið fyrir hjá Rarik og hægt væri að óska eftir þeim upplýsingum. Ég óska eftir að hæstv. ráðherra svari þessu: Er það svo?