131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þrífösun rafmagns.

575. mál
[13:15]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég held að full ástæða sé til að segja að verið er að gera átak í þessum efnum hjá Rarik og ég lýsi mikilli ánægju með það. Til að enginn misskilningur sé á ferðinni sagði ég að það sem færi í þrífösun umfram það sem sérstaklega var lögð áhersla á af hálfu sveitarfélaganna, sem var talað um að mundi kosta um 1.200 millj., að það mundi skila litlu, það sem færi umfram það. Þetta var mjög mikilvæg vinna sem fram fór fyrir nokkrum árum til að átta sig á hvar þörfin væri mest og hvar við værum að nota peningana skynsamlega en fram að þeim tíma hafði ekki farið fram nein úttekt á því.

Á síðustu árum hefur, eins og hv. þingmenn vita, verið lagt fjármagn í þrífösun sem hefur vissulega ekki verið mikið en engu að síður hafa verið teknir ákveðnir áfangar. Þó er mat manna að það geti verið um milljarður sem enn þurfi til að fullnægja þessu þannig að við getum verið bærilega sátt. Nú fer helmingi meira fjármagn í dreifikerfið og m.a. í þrífösunina en síðustu ár og ég lýsi ánægju með að þarna er greinilega verið að leggja sig fram um að bæta þjónustuna. Ef við getum staðið okkur ámóta vel á næstu árum held ég að eftir tiltölulega fá ár verðum við komin að þeim mörkum að við getum verið allsátt. Ég tel að það skipti verulega miklu máli því þetta er eitt af því sem allur smáiðnaður þarf á að halda, stærri kúabú o.s.frv.

Við vitum það öll sem erum þingmenn landsbyggðarkjördæma að gríðarleg áhersla er lögð á að þrífasa og ég mun ekki liggja á liði mínu hvað það varðar. Hins vegar verðum við að hafa í huga að það hafa orðið breytingar í raforkugeiranum þannig að klippt hefur verið á naflastrenginn á milli ríkisins og Rariks.