131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þvingunarúrræði og dagsektir umhverfisstofnana.

556. mál
[13:38]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Tvær stofnanir á vegum umhverfisráðuneytisins og starfsemi sem þeim tengist, annars vegar Brunamálastofnun og Eldvarnaeftirlit sveitarfélaganna og hins vegar Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, starfa samkvæmt lögum sem veita heimild til beitingar dagsekta sem þvingunarúrræðis. Svar þetta nær ekki til stjórnsýslu Brunamálstofnunar og Eldvarnaeftirlits sveitarfélaga þar sem ég hef nýverið svarað skriflegri fyrirspurn fyrirspyrjanda þar að lútandi, sbr. þskj. 467, 382. mál, og er vísað til þess hér hvað þann þáttinn varðar.

Ráðuneytið leitaði upplýsinga hjá Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga en landinu er skipt í 10 svæði heilbrigðiseftirlits. Dagsektum hefur verið beitt um 30 sinnum á þessu tímabili til að þvinga fram úrbætur. Nokkur svæði hafa ekki notað dagsektir og það á við um Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja, Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra.

Hjá Umhverfisstofnun hefur í þremur tilvikum á þessu ári verið tekin ákvörðun um að beita dagsektum vegna vanrækslu á að skila endurskoðaðri skýrslu um grænt bókhald. Í öllum tilvikum var endurskoðaðri skýrslu skilað til stofnunarinnar í framhaldi af því og reyndi því ekki á innheimtu dagsektanna. Stofnunin tók ákvörðun þann 1. nóvember sl. um dagsektir á grundvelli 73. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, en ekki hefur reynt á innheimtu í því tilviki.

Heilbrigðisnefnd Austurlands hefur í tvígang lagt á dagsektir í þeim tilgangi að þvinga fram úrbætur, sbr. heimild í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í öðru tilvikinu fóru lagfæringar fram áður en kom til innheimtu dagsekta. Í hinu tilvikinu var ákvörðun um álagningu þeirra og innheimtu kærð til úrskurðarnefndar hollustuhátta og mengunarvarna sem úrskurðaði að álagning dagsekta hefði verið réttmæt en álagningin jafnframt felld úr gildi þar sem frestur sem gefinn var til andmæla var of stuttur að mati nefndarinnar.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra lagði tvisvar á dagsektir á árinu 2001. Úrbætur höfðu verið gerðar þegar til innheimtu kom.

Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis og heilbrigðisnefnd Vesturlands hafa hvor um sig einu sinni beitt dagsektum til að knýja á um úrbætur.

Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis hefur um 20 sinnum lagt á dagsektir frá árinu 2000. Aldrei hefur komið til þess að þær hafi verið innheimtar því að í öllum tilvikum voru úrbætur gerðar. Að mati Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis eru dagsektir eitt helsta þvingunarúrræði eftirlitsins.

Þær stofnanir sem hér um ræðir og heyra undir ráðuneytið hafa eins og að framansögðu má sjá aldrei fengið dagsektir greiddar, enda eru þær þvingunarúrræði sem beitt er til að fá fyrirtæki eða einstaklinga til að framkvæma ákveðið verk. Þegar verkið er unnið og úrbætur hafa þar með verið gerðar falla dagsektir niður þar sem markmiði þeirra er náð.