131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þvingunarúrræði og dagsektir umhverfisstofnana.

556. mál
[13:42]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þykist skilja aðaltilgang dagsekta og mér finnast þau sjónarmið sem hv. fyrirspyrjandi setti hér fram líka skiljanleg. Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki koma til greina að sett verði sú regla að dagsektum verði ekki að fullu aflétt, heldur verði hluti þeirra eftir sem sekt vegna brotanna. Auðvitað kostar mikið að fylgja eftir með þessum hætti. Það er líka ákveðinn vandi vegna þess að menn spara sér auðvitað í rekstri með því að draga að gera svona úrbætur og samkeppnisaðilum er það þá fjötur um fót í samkeppni við viðkomandi aðila.

Mér finnst þess vegna skoðandi að hluti af dagsektunum yrði látinn halda sér þó að meiri hluti þeirra yrði felldur niður þegar menn hafa orðið við þeim kröfum sem gerðar hafa verið.