131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Lækkun veggjalds í Hvalfjarðargöngum.

548. mál
[14:00]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gefur lítið fyrir það sem að ríkinu snýr í þessu máli. Auðvitað er ríkið ekki aðalgerandinn í málinu. Þetta er hlutafélag og yfir því stjórn sem hefur það verkefni að vinna að þessu máli. Að því hefur verið unnið að undanförnu eins og ég gat um og þingmaðurinn reyndar líka.

Ég tel nauðsynlegt að ítreka að ég tel brýnt að menn klári málið á þeim forsendum sem lagt var upp með. Hér var reyndar gerð sú meginbreyting, vorið 1998, að ákveðið var að flytja virðisaukaskattinn af veggjaldi úr almenna þrepinu niður í lægra þrepið, þ.e. úr 24,5% niður í 14%. Það þýðir að af gjaldinu sem greitt er renna 10% í ríkissjóð, þ.e. af gjaldinu sjálfu eins og alltaf er þegar skatturinn er reiknaður til baka.

Ég er ekki alveg viss um að allir geri sér grein fyrir því að þar liggja ekki hinar stóru fjárhæðir í þessu máli. Ég er ekki á því að við getum leyft okkur að hverfa frá þessari forsendu í málinu, frekar en því að gefa eftir lán ríkissjóðs eða annað sem snýr að ríkisvaldinu í þessu máli, umfram það sem ég hef þegar getið um. Við munum vinna að því að lækka almenna þrepið, þ.e. lægra þrepið í virðisaukaskattinum. Þá mun veggjaldið njóta góðs af því en það verða að sjálfsögðu ekki nema einhver prósentustig af veggjaldinu sjálfu sem um er að tefla. Skatturinn er ekki nema 10 af hundraði í sjálfu gjaldinu.