131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Greiðslur almannatrygginga til öryrkja og aldraðra.

618. mál
[14:02]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Um miðjan 10. áratuginn rauf ríkisstjórnin sambandið milli lágmarkslauna og bótagreiðslna úr almannatryggingum gegn háværum mótmælum samtaka öryrkja og eldri borgara, auk verkalýðshreyfingarinnar. Menn töldu þetta óeðlilegt enda stóðu þá fyrir dyrum kjarasamningar sem gerðu ráð fyrir umtalsverðri hækkun lægstu launataxta. Mönnum fannst þetta undarleg ráðstöfun, að svipta lífeyrisþega og öryrkja kjarabótum sem voru fyrirhugaðar og í sjónmáli. Þótt ekki væri fallist á að koma þeim tengslum á að nýju þá fékkst engu að síður í gegn árið 1997 að lögfest var ákvæði, sem er að finna í 65. gr. almannatryggingalaga, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Bætur almannatrygginga … skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Nú hef ég lagst í nokkra útreikninga vegna þessa. Ég get ekki komist að annarri niðurstöðu en að hér séu brotin lög. Það er sama hvernig þetta mál er reiknað. Ég hef stillt því upp á þrjá vegu. Ég hef skoðað hækkun frá desember 2003 til desember 2004, en þá hækkuðu almannatryggingabætur um 3%. Þá var vísitala neysluverðs 3,9% og vísitala launa 6%. Samkvæmt þessum útreikningi hefði átt að hækka bæturnar um 6%.

Ef við lítum hins vegar á aðra reikniaðferð og skoðum janúar 2004 til janúar 2005, þá nam hækkun bóta almannatrygginga 3,5% en vísitala neysluverðs 4% og vísitala launa 6,6%. Ef við skoðum hins vegar ársmeðaltalið, einu tölur sem til eru frá árinu 2003, þá var hækkun bóta 3%, vísitala neysluverðs 3,2% og vísitala launa 4,6%. Þarna hefðu bæturnar átt að hækka um 4,6% í stað þriggja prósenta.

Þess vegna set ég fram eftirfarandi spurningu og beini henni til hæstv. fjármálaráðherra:

Hverju sætir að greiðslur almannatrygginga til öryrkja og aldraðra hafa ekki fylgt launaþróun eins og kveðið er á um í almannatryggingalögum?