131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Greiðslur almannatrygginga til öryrkja og aldraðra.

618. mál
[14:13]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ef upphæðir grunnlífeyris almannatrygginga og tekjutryggingar, sem eru aðaltryggingabætur almannatrygginga, ættu að ná sama hlutfalli við lágmarkslaun og þær voru í 1991, þegar skerðingar hófust að marki, þyrfti grunnlífeyrir að hækka úr 21.993 kr. í 26.699 kr. á mánuði og tekjutryggingin með eingreiðslum úr 44.909 kr. á mánuði í 52.195 kr. á mánuði. Samkvæmt þessu þyrfti hækkun þessara tryggingabóta að nema 11.900 kr. á mánuði til þess að halda hlutfallinu frá árinu 1991.

Hér vísa ég í svar sem ég fékk við skriflegu erindi til Landssambands eldri borgara sem undirritað er af formanni samtakanna, Benedikt Davíðssyni.

Um svar hæstv. ráðherra vil ég segja þetta:

Í fyrsta lagi þá fagna ég þeirri yfirlýsingu sem frá honum kom, að hann vilji skoða þær tölur sem ég reiddi fram. Hann hafnaði staðhæfingum mínum en sagðist reiðubúinn að skoða þessar tölur.

Ég tel að samkvæmt lagatextanum beri að taka mið af almennri launaþróun. Það er ekki kveðið á um launataxta hjá neinum tilteknum verkalýðsfélögum en það verður að taka mið af almennri launaþróun að mínum dómi til að lögunum verði fullnægt.

Í öðru lagi vísar hæstv. ráðherra í samkomulag sem gert var við Landssamband eldri borgara. Kveðið var á um í því samkomulagi að þær hækkanir, þær eingreiðslur sem þar var samið um skyldu standa utan við hinar lögbundnu hækkanir sem kveðið er á um.

Ég hef nefnt hér tölur með mismunandi reikniaðferðum, mismunandi aðkomu, en í öllum tilvikum er niðurstaðan sú að lög séu brotin á öryrkjum og lífeyrisþegum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka þessi mál til skoðunar.