131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

146. mál
[14:20]

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra undirbúning að stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Haft verði að markmiði að bjóða upp á nám til stúdentsprófs auk þess sem skólinn sérhæfi sig í sjávarútvegsmenntun.

Ráðherra skipi undirbúningshóp sem í sitji fulltrúi menntamálaráðherra, sem veiti hópnum forustu, fulltrúi ráðherra byggðamála, fulltrúi sjávarútvegsráðherra, fulltrúi Dalvíkurbyggðar, fulltrúi Ólafsfjarðarbæjar og fulltrúi Siglufjarðarkaupstaðar.“

Undirbúningshópurinn skal vera ráðherra til ráðgjafar við stofnun skólans.

Flutningsmenn sem standa að þingsályktunartillögunni ásamt mér eru hv. þingmenn Halldór Blöndal, Kristján L. Möller, Steingrímur J. Sigfússon, Sigurjón Þórðarson, Dagný Jónsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Einar Már Sigurðarson og Þuríður Backman.

Hæstv. forseti. Í sveitarfélögunum við utanverðan Eyjafjörð, sem eru Dalvíkurbyggð, Ólafsfjarðarbær og Siglufjarðarkaupstaður, búa rúmlega 4.300 manns. Á þessu landsvæði er því miður ekki boðið upp á menntun á framhaldsskólastigi. Í þessum þremur sveitarfélögum hefur þó verið mjög rík hefð fyrir framhaldsskólamenntun og hafa svokallaðar framhaldsbrautir verið starfræktar um áratuga skeið í sveitarfélögunum sem hafa boðið upp á allt að tveggja ára framhaldsnám sem ungt fólk gat stundað í heimabyggð sinni. Því miður lagðist þetta framhaldsnám af fyrir nokkrum árum og það er ekkert launungarmál að það varð mjög mikil blóðtaka fyrir þessi byggðarlög þegar framhaldsdeildirnar lögðust af og unga fólkið þurfti að flytjast búferlum burt úr bæjarfélögum sínum til þess að stunda framhaldsnám. Þá var sjálfræðisaldurinn 16 ár en er 18 ár í dag þannig að samkvæmt lagabókstafnum eru 16 og 17 ára unglingar börn í skilningi laganna og eru á ábyrgð og framfæri foreldra sinna.

Umræða um stofnun framhaldsskóla er ekki ný af nálinni. Mjög mikil umræða var um stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð á síðasta kjörtímabili og haldnir voru nokkuð margir fundir um það mál, m.a. með þingmönnum kjördæmisins. Málið náði hins vegar ekki inn í sali hv. Alþingis en ljóst var á þeim tíma að ráðuneyti menntamála var því ekkert sérstaklega fylgjandi að stofnaður yrði framhaldsskóli á svæðinu. Mikill áhugi hefur verið hjá okkur mörgum hv. þingmönnum að ýta þessu máli úr vör, enda eru flutningsmenn tillögunnar úr öllum flokkum sem eiga sæti á Alþingi, þar á meðal allir þingmenn Norðausturkjördæmis sem ekki gegna ráðherraembætti. Þessi þingsályktunartillaga á því ákveðinn stuðning innan allra þingflokka á Alþingi sem er mjög mikilvægt að mínu mati.

Hæstv. forseti. Ég byggði þingsályktunartillögu mína að nokkru leyti á skýrslu sem Hermann Tómasson gerði árið 2001 þar sem ljóst var að yfirgnæfandi meiri hluti íbúa við utanverðan Eyjafjörð væru stuðningsmenn þess að starfræktur yrði framhaldsskóli á svæðinu. Áhugi nemenda á framhaldsmenntun á svæðinu var einnig kannaður og lýsti meiri hluti nemenda sig viljugan til þess að stunda nám í heimabyggð sinni. Jafnframt kom fram í þeirri könnun, sem er mjög alvarleg staðreynd og alvarlegt mál sem yfirvöld menntamála þurfa að líta á, að brottfall nemenda sem koma af landsvæðinu við utanverðan Eyjafjörð er meira en gengur og gerist hjá öðrum nemendum hér á landi. Þá voru einnig teknir með þeir nemendur sem sóttu nám til Akureyrar og í ljós kom að brottfall nemenda af þessu svæði var meira en gengur og gerist af öðrum landshlutasvæðum.

Eins og ég sagði áðan er sjálfræðisaldurinn nú 18 ár. Í áðurgreindum þremur sveitarfélögum, Dalvíkurbyggð, Ólafsfjarðarbæ og Siglufjarðarkaupstað, eru 235 einstaklingar á aldursbilinu frá 16–18 ára samkvæmt tölum Hagstofunnar frá 1. desember sl. 235 einstaklingar sem samkvæmt lagabókstaf eru skilgreindir sem börn, eru á framfæri foreldra sinna og þurfa að byggja alla framfærslu sína á þeim. Það segir sig sjálft, hæstv. forseti, að 16 ára unglingar eru náttúrlega misjafnlega undir það búnir að takast á við það að flytja að heiman og hefja nám fjarri sínum nánustu. Það er aðkallandi verkefni í dag að mínu mati, og ég hef heyrt að margir þingmenn eru sammála því að gera þessum aldurshópi, krökkum á aldrinum 16–18 ára, kleift að stunda framhaldsskólanám í heimabyggð sinni. Það eiga að vera sjálfsögð réttindi ungmenna á Íslandi í dag.

Við lifum í þjóðfélagi þar sem freistingarnar eru mjög margar og því skiptir stuðningur fjölskyldunnar þetta unga fólk, ósjálfráða fólk, mjög miklu máli og getur oftar en ekki skipt sköpum á þessu skeiði viðkomandi einstaklings. Við getum sagt okkur það sjálf, hv. þingmenn á hinu háa Alþingi, að þeir 235 einstaklingar sem ég nefndi og eru á aldursbilinu 16–18 ára og búa í þessum þremur sveitarfélögum eru ekki allir reiðubúnir til þess að flytjast að heiman og standa á eigin fótum.

Hæstv. forseti. Það voru margar efasemdarraddir á Alþingi þegar rætt var um stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi. Skólinn hóf starfsemi sína síðastliðið haust og efuðust margir um að margt ungt fólk mundi vilja hefja nám við Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Staðreyndin er hins vegar sú að Fjölbrautaskóli Snæfellinga er kominn til að vera. 115 nemendur, flestir af Snæfellsnesi, hafa ákveðið að stunda nám við þennan nýja skóla. Þessi skóli mun að sjálfsögðu styðja verulega við byggðina á Snæfellsnesi og aðrar byggðir þar í kring. Það er þó staðreynd að íbúar á Snæfellsnesi eru færri en íbúar sveitarfélaganna við utanverðan Eyjafjörð.

Við getum einnig horft til mjög blómlegs skólastarfs í Þingeyjarsýslum. Þar eru starfandi tveir glæsilegir skólar á framhaldsskólastigi, annars vegar framhaldsskólinn á Húsavík og hins vegar framhaldsskólinn á Laugum. Og ef við horfum til íbúafjölda í Þingeyjarsýslum er hann álíka mikill og í byggðunum við utanverðan Eyjafjörð. Þó eru reknar þar tvær glæsilegar stofnanir á framhaldsskólastigi. Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda hver væri staða mála í Þingeyjarsýslum ef Þingeyingar byggju ekki við þessar tvær glæsilegu menntastofnanir. Það er því einboðið, hæstv. forseti, og fyrirmyndirnar eru skýrar, að öflugur framhaldsskóli mun geta blómstrað við utanverðan Eyjafjörð.

Nú halda einhverjir því fram að stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð geti í einhverjum tilfellum bitnað hart til að mynda á menntastofnunum á Akureyri og yfir höfuð á skólabænum Akureyri. Því er ég ósammála og tala þar af nokkurri reynslu þar sem ég bý á Siglufirði, eða í einu af þessum þremur sveitarfélögum. Það er staðreynd að ungt fólk við utanverðan Eyjafjörð, fólk sem ég þekki mætavel, fer oftar en ekki þegar að framhaldsnámi kemur suður yfir heiðar til þess að stunda framhaldsnám.

Oftar en ekki festir þetta sama unga fólk rætur hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem það stundar nám. Hvert er svo framhaldið þegar það hefur fest rætur á höfuðborgarsvæðinu? Það fer margt í framhaldsnám og þá verða gjarnan háskólastofnanir hér fyrir valinu vegna þess að þetta unga fólk sem er á blómaskeiði í lífi sínu, frá 16 ára aldri til tvítugs eða rúmlega það, hefur fest rætur á höfuðborgarsvæðinu.

Mörg dæmi um framhaldið eru skýr og blasa við mér sem íbúa í þessu sveitarfélagi. Í mörgum tilfellum flytur svo fjölskyldan á eftir námsmanninum því ekki dekkar dreifbýlisstyrkurinn námskostnað þessara einstaklinga. Fjölskyldunum er oft nauðugur sá kostur að flytja í byggðarlag sem býður upp á framhaldsmenntun. Því er það staðreynd að margt fólk flytur frá Norðurlandi vegna þessa.

Ef af stofnun skólans verður mun margt ungt fólk stunda nám sitt í heimabyggð. Ég efa ekki að í framhaldinu yrði Háskólinn á Akureyri fyrir valinu frekar en aðrar ágætar háskólastofnanir í landinu. Hér er því um að ræða mikið hagsmunamál fyrir Eyjafjarðarsvæðið í heild sinni og samrýmist áherslum sem lagðar eru til í byggðaáætlun.

Samhliða stofnun skólans sem mun bjóða upp á nám til stúdentsprófs verður stofnsett sérstök sjávarútvegsdeild. Við vitum að mikil hefð er fyrir sjávarútvegsnámi á svæðinu, enda er Eyjafjarðarsvæðið vagga útgerðar og fiskvinnslu í landinu. Það var mjög miður þegar Stýrimannaskólinn og Fiskvinnsluskólinn lagðist af á Dalvík. Það er því ekki spurning að slík sjávarútvegsbraut mundi styðja verulega við umræddan framhaldsskóla, auk þess sem framhaldsskólarnir sinna í sífellt meira mæli sí- og endurmenntun fyrir atvinnulífið í viðkomandi byggðarlögum. Þessir þættir munu því hafa samverkandi áhrif og stuðla að öflugri menntastofnun á svæðinu.

Ég held að við hv. þingmenn ættum heldur ekki að hafa áhyggjur af því að framhaldsskólarnir í landinu séu of margir, enda er það ekkert sérstakt áhyggjuefni. Það er staðreynd að framhaldsskólastigið átti mjög erfitt með að taka á móti þeim fjölda nemenda sem sóttist eftir veru í framhaldsskólum síðasta haust. Það er því þörf að efla framhaldsskólastigið enn frekar.

Hæstv. forseti. Ég dreg enga dul á það heldur að stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð er mikið byggðamál ásamt þeim jákvæðu samfélagslegu áhrifum sem stofnun skólans mundi hafa og styrkja þannig innviði samfélagsins. Við ræðum hér, hv. þingmenn, mikið um byggðastefnu. Við höfum falleg orð um byggðastefnu við hátíðleg tækifæri. Það er alveg ljóst, hæstv. forseti, að við munum ekki byggja þetta land nema með því að leggja aukna áherslu á menntun og þekkingu í hinum dreifðu byggðum. Það er framtíðin.

Þau byggðarlög sem ég hef gert að umfjöllunarefni hér og tengjast stofnun framhaldsskólans hafa háð mikla varnarbaráttu á undanförnum árum. Þessi byggðarlög hafa nær alfarið byggt afkomu sína á sjávarútvegi. Störfum við sjávarútveginn okkar hefur fækkað gríðarlega á umliðnum árum sem er eðlileg þróun þar sem tækninni fleygir fram og það er ljóst að tækniframfarir eiga eftir að verða enn meiri í framtíðinni. Framtíð þessara byggðarlaga getur því ekki byggst á sjávarútveginum einum þó að hann muni áfram skipa stóran sess í atvinnulífinu. Við þurfum að fjölga undirstöðunum og stoðunum undir sjávarbyggðunum.

Það er kveðið á um það í stjórnarsáttmálanum að leitast verði við að veiðigjaldið sem er sérstakur og ósanngjarn skattur á eina atvinnugrein, undirstöðuatvinnugrein landsbyggðarinnar, muni renna til uppbyggingar í sjávarbyggðum landsins. Það er mjög mikilvægt að við sem erum hér í stjórnarmeirihluta og stjórnarminnihluta berjumst fyrir því að þessir fjármunir skili sér til þessara byggða í uppbyggingu atvinnulífsins.

Hæstv. forseti. Okkur ber að stefna að því að stofna framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Það er ekkert launungarmál að slík stofnun mun styrkja innviði þeirra byggða þar sem hafa átt í vök að verjast.

Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir því að þingsályktunartillagan verði send hv. menntamálanefnd og vonandi mun nefndin beita sér fyrir því að tillagan verði afgreidd á þessu þingi þannig að framhaldsskóli verði starfræktur við utanverðan Eyjafjörð innan fárra ára landinu og Eyjafjarðarsvæðinu til heilla.