131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

146. mál
[14:51]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er athyglisvert að þessi góða tillaga til þingsályktunar, sem hv. þm. Birkir J. Jónsson er 1. flutningsmaður að, er fyrst og fremst flutt af þingmönnum kjördæmisins. Það er eins og gefur að skilja eðlilegur hlutur. Ég vil samt sem áður koma upp, sem fulltrúi þéttbýlisins, þótt ég líti náttúrlega á mig sem fulltrúa allra landsmanna eins og þingmenn eiga að gera, og lýsa sérstökum stuðningi við þessa tillögu.

Ég hef á mörgum fundum á þessu svæði orðið þess áskynja að hugur heimamanna stendur ákaflega til þess að stofna framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Ég tel sömuleiðis að það skipti afskaplega miklu máli fyrir styrkingu byggðar í landinu, sérstaklega þar sem hún hefur ekki verið nægilega traust fyrir, að efla menntastigið. Þegar við skoðum hvað veldur því að fólk flyst af landsbyggðinni þá er það ýmislegt en eitt af því er launastigið. Ágætar skýrslur sem hafa verið gerðar, t.d. af rannsóknarfólki við Háskólann á Akureyri, sýna að launastigið fylgir menntastiginu. Takist að hækka menntastigið þá hækkar launastigið og þá dregur úr líkum á því að fólk flytjist í burtu.

Auðvitað er margt annað sem veldur því að fólk flytur af landsbyggðinni. Eins og hv. þm. Kristján L. Möller hefur mörgum sinnum bent á er hátt vöruverð stór hluti af því og skattastefna ríkisstjórnarinnar varðandi flutningsskatta hefur leitt til þess að vöruverð er hærra en það þyrfti að vera. En það er hægt að grípa til margra ráða til að styrkja byggð og þetta er eitt af þeim ráðum.

Ég sagði áðan að hækkun menntastigs leiddi til hækkunar launastigs í héraði og treysti rætur fólksins sem þar býr. En fleira kemur til. Ég tala hér sem foreldri ungra dætra sem væntanlega eiga eftir að fara í framhaldsskóla. Á þeim tímum sem við lifum er það einfaldlega þannig að ekki eru allir reiðubúnir að sjá á eftir ungum börnum sínum fara úr heimabyggð til náms á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar. Það leiðir oft til þess að foreldrarnir fara með. Með því að skapa möguleika fyrir ungt fólk til að verða sér úti um framhaldsmenntun í heimabyggð þá dregur um leið úr líkum á því að foreldrar barna á framhaldsskólaaldri flytjist með þeim.

Stjórnvöld og Alþingi hafa tekið höndum saman um að gera margvíslegar góðar tilraunir sem hafa sýnt mjög jákvæðan árangur. Ég vil sérstaklega nefna að fyrir nokkrum árum fluttu alþingismenn Samfylkingarinnar þingmál, um það að stofna framhaldsskóla með fjarkennslu, t.d. á Grundarfirði. Það var vegna þess að hjá heimamönnum hafði komið fram ríkur vilji til þess. Framsýnir heimamenn réðust í að kynna þá hugmynd fyrir þingmönnum og þingflokkum og ríkisstjórn. Það leiddi til þess að nú er þar kominn framhaldsskóli. Það skiptir sköpum fyrir það byggðarlag.

Það skiptir sköpum fyrir sérhvert byggðarlag að þar séu áfram rótfastir kannski 100–200 unglingar á framhaldsskólaaldri sem ella hefðu farið annað. Það skiptir líka miklu máli fyrir foreldrana að ungarnir séu orðnir fiðraðir og fleygir þegar þeir fara úr hreiðrinu og þau þurfi þá ekki að fljúga með þeim. (Gripið fram í.) Þetta veit ég að hv. þm. Ögmundur Jónasson skilur. Ég sé það á svipbrigðum hans að hann deilir þessari skoðun með mér.

Þetta framtak sem hér liggur fyrir í gervi þingsályktunartillögu frá þeim hv. þingmönnum sem tengjast kjördæminu og Norðurlandi er því vegna mjög jákvætt framlag. Ég þakka þeim ágætu þingmönnum fyrir að hafa drifið í þessu. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé eitt af því sem eigi að gera og ekki bara þarna heldur víðar. Ég tel að með nútímalegri tækni og reynslu, sem Norðlendingar hafa umfram aðra þróað og eru frumkvöðlar að, sé auðveldara að ráðast í að stofna framhaldsskóla þar sem ekki er stórt upptökusvæði nemenda. Þar skiptir máli að sú reynsla sem Eyfirðingar hafa heyjað okkur Íslendingum með frumkvæði sínu á sviði fjarmenntunar sé nýtt til þess að gera þetta.

Eins og ég gat um fyrr í ræðu minni hafa menn gert hið sama annars staðar á landinu, t.d. á Grundarfirði og reyndar líka í þeim hluta Austurlands sem fluttist yfir kjördæmamörkin, þ.e. á Höfn í Hornafirði. Ég minnist þess að ég kom í 100 manna framhaldsskóla á Höfn í Hornafirði og var þar viðstaddur kennslustund þar sem fyrirlestri kennarans var varpað til tveggja annarra staða á Austurlandi, þ.e. framhaldsskólans í Neskaupstað og á Egilsstöðum. Þar fengu menn líka að nema sömu fræðslu. Mér fannst stórkostlegt að sjá hvernig þrír skólar gátu þannig sameinast um að halda uppi traustum námskjarna með framboði á upplýsingum og kennslu frá þremur mismunandi stöðum. Þetta er framtíðin, frú forseti, og eitt af því sem ég tel að hljóti að koma vel til skoðunar þegar menn ráðast í það, sem ég efa ekki að verði að veruleika, að stofna framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð.

Þetta tengist líka, frú forseti, hugmyndum um sameiningu sveitarfélaga. Ég vil að það komi skýrt fram að ég er einn þeirra sem telja ákaflega nauðsynlegt að stækka sveitarfélögin duglega. Ég tel að sveitarfélög á landinu eigi helst ekki að vera fleiri en 12–14. Um leið og sveitarfélögin verða stærri munu þau reiðubúnari og færari til að takast á hendur öflugri, erfiðari og flóknari viðfangsefni.

Eitt af því sem ég tel, og hv. flutningsmenn kunna að vera mér sammála um, er að í framtíðinni eigi að stefna að því að flytja framhaldsskólann til sveitarfélaganna. Ég geri mér mætavel grein fyrir því, frú forseti, að flutningur grunnskólans tókst þannig til fjárhagslega að sveitarfélögin telja — þau telja kannski ekki að þeim hafi verið reistur fjárhagslegur hurðarás um öxl — eigi að síður að þau hafi fengið á sig töluvert meiri bagga en þau gerðu ráð fyrir í upphafi. Þegar við höfum til að mynda rætt um þessi mál í okkar flokki, í Samfylkingunni, þá gjalda menn varhuga við þessum hugmyndum. Ég segi hins vegar: Við eigum að vera framsýn. Við eigum að horfa til framtíðar og byggja á þeirri reynslu sem við urðum okkur úti um með flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna þegar við gerum tillögur um flutning framhaldsskólans til þeirra. Sú reynsla sýnir okkur að það verður að tryggja sveitarfélögunum tekjustofna. Það er eitt af því sem ýmsir ágætir flutningsmenn þessarar tillögu gætu unnið betur að gagnvart þeim mönnum sem ráða landinu í dag, en vonandi ekki allt of lengi.

Að lokum, frú forseti, vil ég segja, sem þingmaður Reykvíkinga, að mér hugnast þessi tillaga vel. Ég er ánægður með þann hug og framfaradug sem að baki býr og lýsi yfir stuðningi mínum við hana.