131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Úttekt á ástandi eigna á jarðskjálftasvæðum.

226. mál
[15:21]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki langur tími til stefnu þar til við eigum að hefja hér áður boðaða utandagskrárumræðu. En ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um úttekt á ástandi eigna á jarðskjálftasvæðum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Drífa Hjartardóttir, Hjálmar Árnason, Lúðvík Bergvinsson, Kjartan Ólafsson, Björgvin G. Sigurðsson, Böðvar Jónsson, Magnús Þór Hafsteinsson og Jón Gunnarsson. Hv. þm. Guðjón Hjörleifsson sem var utan þings þegar tillagan var lögð fram hefur áður verið flutningsmaður að henni en hún hefur verið flutt einum fimm sinnum.

Í tillögugreininni segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram rannsókn og úttekt á ástandi eigna á öllum helstu jarðskjálftasvæðum á Íslandi. Rannsóknin fari fram á næstu tíu árum og markmið hennar verði að efla varnir og viðbúnað gegn jarðskjálftum þar sem megináhersla verði lögð á að fyrirbyggja manntjón og draga úr slysum, sem og að lágmarka skemmdir á byggingum, tæknikerfum og innanstokksmunum. Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi hafi yfirumsjón með verkinu. Strax að lokinni úttekt á fyrsta svæði sem rannsakað verður skulu niðurstöður birtar og ákveðið hvernig staðið verði að því að bæta eða kaupa þær eignir sem teljast varhugaverðar með tilliti til mögulegs tjóns af völdum jarðskjálfta. Kostnaður við verkið greiðist úr ríkissjóði.“

Virðulegi forseti. Það er óþarfi að fara yfir greinargerðina frá orði til orðs. Þessi tillaga hefur verið flutt fjórum eða fimm sinnum áður og hefur þá verið farið ítarlega yfir greinargerðina og það mikla verk sem Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði er að vinna á Selfossi. En alveg frá því að jarðskjálftarnir urðu 17. og 21. júní árið 2000 þegar verulegar skemmdir urðu á eignum á stóru svæði á Suðurlandi hefur þessi stofnun fylgst með ekki bara því sem skemmdist og talið var skemmt fyrstu vikur og mánuði eftir jarðskjálftana heldur einnig þeirri þróun sem hefur orðið síðan þá.

Það urðu verulegar skemmdir á húsnæði í jarðskjálftunum og margar hverjar hafa verið bættar. Engu að síður hefur komið í ljós í rannsókn frá árinu 2000–2004, þ.e. síðastliðið haust, að sífellt voru að uppgötvast nýjar og nýjar skemmdir á húsum fyrstu mánuðina og árin eftir Suðurlandsskjálftana 2000 og enn á haustmánuðum nú 2004 er verið að skrá og greina upplýsingar eða heimildir um slíkar síðmyndaðar eða síðuppgötvaðar skemmdir á megináhrifasvæðum Suðurlandsskjálftanna 2000. Algeng dæmi um svona skemmdir sem jafnframt var ekki vitað um fyrir Suðurlandsskjálftana eru nýjar sprungur eða breytingar á eldri sprungum í steinsteyptum gólfplötum og veggjum, kúptar eða dældaðar steinsteyptar gólfplötur, þ.e. gólfplötur sem eru oft sprungnar í gegn og misgengnar um sprungurnar, vatnsleki, köld gólf, slagi í gólfplötum, dragsúgur og merkjanlegur halli á húsum í heild sem oft er eins og kúptar gólfplötur einnig marktæk vísbending um að hús hafi hnikast á undirstöðu sinni, sem er þá jafnframt marktæk vísbending um mjög alvarlega og varanlega röskun eða skemmd á jarðvegsundirstöðu. Margar þessara eigna hafa þegar verið og eru löngu metnar og hafa verið greiddar út bætur vegna þeirra en jarðskjálftamiðstöðin hefur haldið áfram þessum rannsóknum sem eru að leiða í ljós samkvæmt skýrslum sem þeir skiluðu í haust að verulega alvarlegar skemmdir eru á mörgum stöðum á Suðurlandi eftir jarðskjálftana sem ekki höfðu komið í ljós þegar skoðunarmenn viðlagatrygginga eða tryggingafélaga luku sinni athugun.

Nú eru að verða fimm ár síðan jarðskjálftarnir voru eða fjögur og hálft ár og það er mjög alvarlegt að enn skuli vera að koma fram verulegar skemmdir á þessum svæðum. Það segir okkur að þessi tillaga sem gerir ráð fyrir að gerð verði heildarúttekt á mannvirkjum á öllum þekktum jarðskjálftasvæðum á landinu þar sem búast má við stökum jarðskjálftum með það að markmiði að niðurstöður slíkrar úttektar yrðu nýttar til að fyrirbyggja manntjón, draga úr slysum og lágmarka skemmdir á byggingum, innanstokksmunum og tæknikerfum, þ.e. það segir okkur að slíkar rannsóknir eru mjög nauðsynlegar því að Suðurland er ekki eina þekkta jarðskjálftasvæðið á landinu. Við flutningsmenn þessarar tillögu, allir hv. þingmenn Suðurkjördæmis, leggjum til að Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi hafi yfirumsjón með verkefninu en að kostnaður þess verði greiddur úr ríkissjóði. Við byggjum þá niðurstöðu okkar að þessar rannsóknir skuli fara fram af hálfu þessarar rannsóknarmiðstöðvar á því að vinna hennar á undanförnum árum hefur sýnt og sannað mikilvægi verkefnisins og að þar sinna því afar hæfir starfsmenn. Rannsóknarmiðstöðin býr yfir mikilli þekkingu á ástandi jarðskjálftasvæðisins á Suðurlandi og afleiðingum jarðskjálftanna þar og enn eru að koma fram dæmi um það m.a. að húsnæði er jafnvel illa íbúðarhæft sem áður hafði verið talið í lagi vegna þess að skemmdir eru enn að koma fram.

Virðulegi forseti. Ég legg mikið upp úr því að menn haldi tímamörk þannig að ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til allsherjarnefndar og vona að nú sjái þingið sér fært að afgreiða hana eða í það minnsta að skoða þær umsagnir sem hafa borist — þær eru margar hverjar jákvæðar og flestar reyndar — og að mikilvægi þessa verkefnis, þ.e. að gera heildarúttekt á öllum jarðskjálftasvæðum á landinu og því að jarðskjálftamiðstöðinni verði falið það verkefni, verði metið að verðleikum af Alþingi. Ég vona þingnefndin sjái sér nú loks fært eftir fimm ára vinnu að afgreiða tillöguna.