131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Fjárhagsstaða ellilífeyrisþega.

[15:33]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. 10. þm. Suðvest. og málshefjandi hér í dag spyr þriggja spurninga sem varða bótagreiðslur til aldraðra. Mér er bæði ljúft og skylt að svara spurningunum sem hv. þingmaður beinir til mín. Hann spyr fyrst hvort ráðherrann hafi í hyggju að beita sér fyrir umtalsverðri hækkun á greiðslum almannatrygginga til eldri borgara.

Það er auðvitað teygjanlegt hvað umtalsverð hækkun á greiðslum almannatrygginga felur í sér en eins og fram kemur í fjárlögum ársins er ekki gert ráð fyrir stökkbreytingum í greiðslum almannatrygginga á árinu 2005. Það er hins vegar rétt að halda því til haga að samkvæmt fjárlögum hækka framlög til ellilífeyrisþega á árinu um tæpa 2 milljarða kr. Sú breyting er vegna hækkunar bóta og fjölgunar ellilífeyrisþega. Hækkunina má einnig rekja til umtalsverðra breytinga á hag lífeyrisþega í kjölfar merkilegs samkomulags sem gert var við samtök aldraðra á árinu 2002 og nú hefur verið hrint í framkvæmd.

Bætur Tryggingastofnunar ríkisins breyttust t.d. samkvæmt þessu samkomulagi þannig að fjárhæð tekjutryggingar og tekjutryggingarauka frá Tryggingastofnun ríkisins hækkaði 1. janúar 2003. Frá sama tíma var ákvæðum almannatrygginga um tekjutengingu breytt þannig að skerðingarhlutfall tekna gagnvart tekjutryggingarauka lækkaði úr 67% í 45%. Með aðgerðinni var hagur aldraðra bættur umtalsvert og framlög ársins 2003 hækkuð um 1.600 millj. kr. vegna þessara breytinga.

Fyrir utan þennan þátt samkomulagsins við aldraða var samið um að tekjutrygging og tekjutryggingarauki hækkuðu um 2 þús. kr. hvort um sig þann 1. janúar í fyrra. Hafði þetta það í för með sér að framlögin það ár hækkuðu um tæpar 1.100 millj. kr. Hér erum við að tala um að samkomulagið hafi skilað öldruðum 2,7 milljörðum kr.

Virðulegi forseti. Þetta er tekið fram til að ítreka í senn þann árangur sem samstarfið við aldraða skilaði og viljann sem ríkisstjórnin hefur sýnt í málaflokknum. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa nú ákveðið í samráði við Landssamband eldri borgara á fundi í síðustu viku að starfshópur haldi áfram því samstarfi sem tókst svo vel fyrir skemmstu og það er hugsanlegt — ég undirstrika hugsanlegt — að þar verði t.d. tekinn til umfjöllunar jaðarskattavandinn, sem svo er nefndur, ásamt öðrum málum sem hv. málshefjandi hefur rætt um. Árangurinn verður svo að koma í ljós þegar starfinu hefur miðað fram.

Það er einnig spurt hvort ríkisstjórnin hyggist grípa til sérstakra aðgerða vegna þess hóps sem er með 110 þús. kr. heildartekjur á mánuði. Í því sambandi er rétt að taka fram að allar götur frá árinu 1995 hefur verið leitast við að bæta stöðu þess hóps aldraðra sem lægstar hefur haft ráðstöfunartekjurnar. Samkvæmt fjárlögum ársins stendur ekki til að fara í sérstakar aðgerðir af því tagi sem spurt er um á þessu ári. Hins vegar er rétt að fram komi að kaupmáttur hópsins hefur á umliðnum árum aukist meira en kaupmáttur almennra launa. Þannig hækkuðu t.d. meðaltekjur ellilífeyrisþega á mánuði um rúmlega 80% á árunum 1995–2003 samkvæmt gögnum frá ríkisskattstjóra. Á sama tíma hækkaði almenn launavísitala um 72% og verðlagsvísitalan um 31%. Kaupmáttur ellilífeyrisþega jókst því umtalsvert á kjörtímabilinu.

Þegar tekinn er sá þriðjungur ellilífeyrisþega sem lægstar hafði tekjur samkvæmt skrám ríkisskattstjóra hækkuðu þær svipað hlutfallslega. Kaupmáttur tekna þessa hóps jókst um rúmlega 35% á árunum 1995–2003 á meðan kaupmáttur almennra launa jókst um rúmlega 31%. Á þessu sést að hagur aldraðra almennt og þess þriðjungs sem lægstar hefur tekjur hefur vænkast.

Ég vona að þessi atriði svari eða varpi ljósi á það sem hv. 10. þm. Suðvest. tók hér upp. Eldri borgarar eiga sér baráttumál og þannig mun það ávallt verða. Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á að samkomulagið sem gert var við samtök aldraðra fyrir rúmum tveimur árum og við höfum verið að hrinda í framkvæmd skilaði miklum árangri. Það er von til að við getum með sama sniði komið okkur saman, samtökin og stjórnvöld, um markmið og leiðir næstu tvö árin til að bæta hag þeirra sem höllum fæti standa í þessum þjóðfélagshópi.