131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Fjárhagsstaða ellilífeyrisþega.

[15:38]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Örlygssyni fyrir að hefja þessa umræðu um fjárhagsstöðu ellilífeyrisþega. Samkvæmt skattframtölum var þriðjungur ellilífeyrisþega, um 10 þús. manns, þ.e. einn af hverjum þremur, með um eða undir 110 þús. kr. tekjur á mánuði með eingreiðslu og síðan var greiddur skattur af þessari upphæð. Samkvæmt útreikningum hagfræðings Félags eldri borgara mun kaupmáttur ráðstöfunartekna þessa hóps að öllum líkindum hækka um 9,8% frá 1995–2007, á sama tíma og ríkisstjórnin staðhæfir að kaupmáttur ráðstöfunartekna almennings hafi hækkað um 40%, þ.e. frá 1995, og muni hækka um 55% frá sama tíma til ársins 2007 eftir að boðaðar lækkanir tekjuskatts koma til framkvæmda.

Þetta er auðvitað hróplegt misrétti og misræmi. Ef þessir lífeyrisþegar eiga að sitja við sama borð og almennir launþegar þarf að hækka grunnlífeyri og tekjutryggingu 100% fyrir árið 2007, úr 67 þús. kr. sem þær eru í dag í 140 þús. kr.

Hækkanirnar sem hæstv. ráðherra nefndi áðan eru aðallega vegna þess að það fjölgar í hópi ellilífeyrisþega og einnig vegna lögbundinna ákveðinna vísitöluhækkana. Skerðingarreglur lífeyrisgreiðslna þarfnast gagngerrar endurskoðunar, jaðarskattarnir eru svo miklir að þessi hópur lendir í fátæktargildru sem lýsir sér í því að þrátt fyrir auknar tekjur hækka ráðstöfunartekjur til hins aldraða nánast ekki neitt. Maður getur borið lífeyrisþega sem hefur ekkert úr lífeyrissjóði saman við annan lífeyrisþega með 140 þús. kr. úr lífeyrissjóði sem hann er búinn að safna með sparnaði — sá hefur aðeins 34 þús. kr. hærri ráðstöfunartekjur en sá sem engu hefur safnað. Það er náttúrlega alls ekki viðunandi.

Síðan þarf að skoða skattgreiðslurnar og huga að því hvort ekki eigi að taka skatt af lífeyrisgreiðslum og hafa hann sem fjármagnstekjuskatt (Forseti hringir.) eins og margir hafa kallað eftir.