131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Fjárhagsstaða ellilífeyrisþega.

[15:40]

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Í umræðum um fjárhagsstöðu ellilífeyrisþega er ánægjulegt að ekki er deilt um hvort kjör þeirra hafi batnað undanfarin ár heldur hve mikið þau hafa batnað. Að sama skapi er það mjög ánægjulegt þegar litið er til framtíðar að við erum að búa í haginn fyrir betri fjárhagsstöðu eldri borgara en áður með öflugu lífeyrissjóðakerfi sem við Íslendingar erum öfunduð af. Kaupmáttur hjóna sem bæði eru lífeyrisþegar og fá óskertar mánaðargreiðslur auk tekjutryggingarauka hefur vaxið um 66% frá árinu 1995, sem er langt umfram vöxt kaupmáttar launa.

Það er að vísu rétt sem málshefjandi tók hér fram að það er tiltölulega lítill hópur sem fær óskertar bætur en hlutfallslega hefur aukningin verið umtalsvert meiri en vöxtur kaupmáttar lægstu launa þegar horft er yfir það tímabil sem hér er átt við. Um þetta má svo sem vísa beint til svars hæstv. fjármálaráðherra sem fram kom við fyrirspurn hv. þm. Ögmundar Jónassonar hér fyrr í dag.

Þegar rætt er um kjör eldri borgara verður ekki hjá því komist að geta um niðurfellingu eignarskattsins sem ákveðinn var á þessu þingi. Afnám eignarskattsins hefur lengi verið baráttumál aldraðra en því miður hefur tiltölulega lítið farið fyrir því að forustumenn eldri borgara hafi tekið þessari breytingu fagnandi. Það kemur mjög á óvart vegna þess að í kringum 10 þús. eldri borgarar sem hafa árlegar tekjur innan við 1,5 millj. hafa verið að greiða eignarskatt en munu ekki gera það frá og með þessu skattári. Alls hafa 17 þús. einstaklingar yfir sjötugu greitt eignarskatt en þeir sem eru 66 ára og eldri hafa greitt 33% allra eignarskatta. Í þessu felst verulega mikil kjarabót fyrir þá einstaklinga (Forseti hringir.) sem hér hefur verið vísað til í umræðunni, þá 10 þús. sem eru með minna (Forseti hringir.) en 110 þús. á mánuði, að fá eignarskattinn felldan niður.