131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Fjárhagsstaða ellilífeyrisþega.

[15:43]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Gunnari Örlygssyni fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp hér á þinginu.

Aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast og hlutfall aldraðra eykst á hverju ári. Þrátt fyrir að þeim fjölgi árlega sem fá greiðslur úr lífeyrissjóðum stéttarfélaga eru lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins einu tekjurnar sem mjög margir aldraðir hafa til framfærslu. Því er mikilvægt að upphæð grunnlífeyris og tekjutryggingar fylgi kjaraþróun, skattleysismörk fylgi verðlagi og skerðingarmörkin verði hækkuð. Þessir mikilvægu þættir hafa setið eftir, eins og margoft hefur verið bent á af Landssambandi eldri borgara. Skattleysismörkin hafa ekki hækkað í takt við þróun verðlags. Þetta kemur sérstaklega illa við ellilífeyrisþega, öryrkja og aðra láglaunahópa.

Efnahagur og tekjur hafa áhrif á heilsufar fólks. Fátækt hefur mjög neikvæð áhrif og það á ekki síður við þegar aldurinn færist yfir. Ekki hefur verið gerð sérstök könnun á framfærslukostnaði aldraðra en það er ljóst að bágur efnahagur hvetur til umsóknar á dvalar- eða hjúkrunarheimilum til að tryggja öryggi í búsetu og næringu, þó svo að fjárhagslegt sjálfstæði sé þá stórlega takmarkað á þessum stofnunum.

Þessi staða er þjóðfélaginu dýr, biðlistar eftir dvalarheimilisplássum eða öðrum stofnanatengdum úrlausnum eru langir og á meðan líða aldraðir og fjölskyldur þeirra þar sem aðrar úrlausnir eru ekki til staðar. Í stað þess að lækka tekjuskatt, sem kemur efnuðum helst til góða, ætti að vera forgangsverkefni að hækka skattleysismörk til jafns við framfærslukostnað og hækka lífeyri í takt við launaþróun. Sveitarfélögin verða að fá fleiri tekjustofna eða hærri útsvarsprósentu til að geta veitt þá félagsþjónustu í heimahúsum sem nauðsynleg er í dag en ekki síður til að koma til móts við vaxandi fjölda aldraðra. Félagsþjónusta heimila er eina lausnin til að draga úr (Forseti hringir.) ótímabærri dvöl á öldrunarstofnunum og hærri raungreiðslur lífeyris ein leið til að koma fjölmörgum (Forseti hringir.) öldruðum úr fátæktargildru og óviðunandi aðstæðum.