131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Fjárhagsstaða ellilífeyrisþega.

[15:45]

Steinunn K. Pétursdóttir (Fl):

Virðulegur forseti. Í desember sl. gafst ríkisstjórn landsins tækifæri til að rétta hlut eldri borgara í hinu ríka landi okkar með því að hækka persónuafsláttinn. Ríkisstjórnin ákvað hins vegar að fara aðra leið. Flöt lækkun á tekjuskattsprósentunni var dagskipunin, aðferð sem mun afar lítið eða jafnvel ekkert gagnast þeim rúmlega 10 þús. eldri borgurum sem í dag búa við þau kjör að hafa brúttótekjur undir 110 þús. kr. á mánuði.

Á örfáum áratugum hefur landið okkar tekið miklum breytingum, svo miklum að um fádæmi er að ræða. Þjóðin hefur risið úr því að vera fátækt bændasamfélag í að vera tæknivætt nútímaþjóðfélag sem samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum er eitt það ríkasta í heimi. Hverjum ber að þakka þessar framfarir, virðulegi forseti? Fyrst og fremst þeim einstaklingum sem hér eru til umræðu, fyrst og fremst eldri kynslóð þjóðarinnar sem býr þó við það að allt of margir einstaklingar þeirrar kynslóðar lifa í dag undir fátæktarmörkum. Er þetta sá virðingarvottur sem þeim ber? Okkur ber skylda til að sýna stoltu og fullorðnu fólki þá virðingu í verki að tryggja því mannsæmandi kjör.

Hv. málshefjandi Gunnar Örlygsson hefur vel rökstutt þá fullyrðingu að hækka beri greiðslur almannatrygginga. Í máli þingmannsins kom skýrt í ljós að greiðslur grunnlífeyris og tekjutryggingar hafa alls ekki verið í takt við þróun launavísitölu síðustu ára. Ég hvet því ríkisstjórn Íslands að mæta bágri fjárhagsstöðu þúsunda eldri borgara af ákveðni og með réttmætum hætti.