131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Fjárhagsstaða ellilífeyrisþega.

[15:49]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Stjórnarflokkarnir hafa skert svo kjör aldraðra að það þyrfti að hækka grunnlífeyri og tekjutrygginguna um heila 4,6 milljarða kr. í dag til að þessi framfærslueyrir aldraðra héldi raungildi sínu nú miðað við grunnlífeyri og tekjutryggingu eins og þessar lífeyrisgreiðslur voru árið 1995 þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn tóku við stjórnartaumunum. Þetta er samkvæmt útreikningum sem Samfylkingin hefur látið gera. Hefðu stjórnarflokkarnir ekki hirt þessa 4,6 milljarða í ríkissjóð væru grunnlífeyrir og full tekjutrygging 12 þús. kr. hærri en ella á mánuði, þ.e. tæplega 150 þús. kr. á ári.

Stjórnarflokkarnir eiga að sjá sóma sinn í því að skila þessum fjármunum aftur til aldraðra ásamt því að lögfesta að grunnlífeyrir aldraðra, svo breyttur, haldi raungildi sínu í framtíðinni en sé ekki háður geðþóttaákvörðunum stjórnvalda hverju sinni eins og gerst hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar. Stjórnarflokkarnir hafa margsýnt að þeir muna bara eftir lífeyrisþegum rétt fyrir kosningar á fjögurra ára fresti þegar þeir þurfa á atkvæðum þeirra að halda. Neysluútgjöld einstaklinga samkvæmt upplýsingum Hagstofu voru á síðasta ári 170 þús. kr. 10 þús. ellilífeyrisþegum er nú gert að lifa af 110 þús. kr. á mánuði, hafa þannig 60 þús. kr. minna sér til framfærslu en neysluútgjöld einstaklinga sýna og 30 þús. kr. minni framfærslueyri en félagsmálaráðuneytið segir nauðsynlegan til allra brýnustu framfærslu þeirra. Samt greiða þessir 10 þús. ellilífeyrisþegar 14% af tekjum sínum í skatt en greiddu 2–3% af samsvarandi tekjum fyrir 10 árum þegar stjórnarflokkarnir tóku við, auk verulegrar hækkunar á lyfjum og lækniskostnaði. Allt þetta er staðfesting á því að ríkisstjórnarflokkarnir hafa staðið fyrir samfelldri aðför að kjörum aldraðra í 10 ára valdasetu sinni.

Hæstv. forseti. Er ekki mál að linni?