131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[11:25]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum nýtt frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum. Frumvarpið lýtur að mjög ákveðnu máli, þ.e. að fresta kjördegi varðandi sameiningu sveitarfélaga, en eins og þingmenn heyra af umræðunni snýst aðalumræðan um allt annað mál, sem er mjög eðlilegt, eða um tekjustofna ríkis og sveitarfélaga.

Aðdragandinn er sá að ákveðið var að gera átak til að efla sveitarstjórnarstigið í landinu og eins og hér hefur margoft komið fram var það gert að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sett var því í gang umfangsmikil vinna um átakið vegna óska Sambands íslenskra sveitarfélaga, þ.e. sveitarstjórnarmannanna, um að efla sveitarstjórnarstigið. Settar voru upp dagsetningar og ákveðinn taktur var í vinnunni, nefndarskipanir og annað en nú hefur komið í ljós að fresta þarf ákveðnum hlutum af mjög eðlilegum ástæðum. Ég tel að frumvarpið hljóti að fá víðtæka samstöðu í þinginu af því að það leiðir af sjálfu sér að fresta þarf dagsetningum á sameiningarkosningum sökum þess hvað komið er nálægt þeim í tíma í augnablikinu. Í dag stendur í bráðabirgðaákvæði III í núgildandi lögum að kjósa eigi 23. apríl 2005 og það er of skammur tími til stefnu, eins og fram hefur komið.

Ástæðurnar eru auðvitað þær að það tók lengri tíma en gert var ráð fyrir að ná saman í tekjustofnanefndinni um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga og af þeim sökum hefur dregist að sameiningarnefnd kynni endanlegar tillögur sínar. Það er því mjög eðlilegt að fresta þurfi kosningum og ég á von á því að menn geti náð saman um það. Það er brýnt að ná lögunum í gegn á tiltölulega skömmum tíma svo menn geti farið að undirbúa að setja samninganefndirnar af stað og auglýsa þá dagsetningu sem menn velja á hverju svæði fyrir sig varðandi kosningar um sameiningu sveitarfélaga. Það má því segja að því fyrr sem við náum málinu í gegn í þinginu því betra.

Frumvarpið er alls ekki stórt í sniðum heldur einungis þrjár greinar og skýrir sig að mestu leyti sjálft.

Á morgun mun sameiningarnefnd kynna tillögur að breyttri sveitarfélagaskipan á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga og ég bíð mjög spennt eftir að fá að sjá þær tillögur. Fyrir nokkrum árum þegar sú er hér stendur var í sveitarstjórn voru sveitarfélögin á Íslandi í kringum 200 og á þeim tíma voru sveitarfélögin t.d. í Færeyjum um 50 talsins, að mig minnir, og maður hló að því að það væru 50 sveitarfélög í Færeyjum. En það er alveg jafnmikið hlátursefni að það voru 200 sveitarfélög á Íslandi á þeim tíma. Það eru auðvitað allt of mörg sveitarfélög. Í dag eru sveitarfélögin í kringum 100. Það eru líka allt of mörg sveitarfélög og samstaða um að fækka þeim. Menn hafa nefnt ýmsar tölur í því sambandi. Ég vil sérstaklega vekja athygli á yfirlýsingu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar en mér skilst að hann hafi séð fyrir sér að sveitarfélögin á Íslandi gætu verið 12–14. Ég held að það sé nokkuð langt gengið og ímynda mér að ef það yrði niðurstaða yrði líklega um að ræða þrjú stjórnsýslustig á Íslandi, þ.e. það yrði einhver neðri stjórnsýsla fyrir neðan þessi 12–14 sveitarfélög sem yrðu svo geysilega stór. Ég á því ekki von á því að við sjáum 12–14 sveitarfélög á Íslandi í nánustu framtíð, en þetta kom alla vega fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir stuttu í umræðum einhvers staðar opinberlega.

Í haust voru kynntar tillögur að 39 sveitarfélögum frá sameiningarnefnd. Ég fór á kynningarfundinn og leist vel á þær tillögur en mér skilst að á morgun verði kynntar tillögur sem sýna 46 sveitarfélög. Þau eru því orðin aðeins fleiri en það er auðvitað stórkostlegur árangur ef það næst í gegn í kosningum að ná sveitarfélögunum úr um það bil 100 niður í 46. Það er helmingsfækkun þannig að þá erum við komin mjög langt á leið með að ná fram ásættanlegri stærð af sveitarfélögum miðað við nútímann.

Í vinnu sameiningarnefndar var það skoðað á sínum tíma hvað sveitarfélögin þyrftu að vera stór til þess að vera sæmilega lífvænleg. Auðvitað er mjög erfitt að slá einhverri tölu á það. Það voru færð viss rök fyrir því að íbúatalan 1.500 væri nægileg til að geta borið þau verkefni sem sveitarfélögin sinna í dag, og var þá sérstaklega tilgreint að íbúatalan 1.500 gæti t.d. staðið ágætlega að barnaverndarmálum, félagsþjónustu o.s.frv.

Það er mjög mikilvægt að sameiningaráformin geti komist til framkvæmda sem fyrst og því er mikilvægt að við samþykkjum þetta frumvarp sem fyrst svo hægt sé að fara að auglýsa útlínur að nýjum sveitarfélögum og leyfa fólkinu síðan að taka upplýsta ákvörðun í framhaldi af því.

Menn spyrja af hverju verkefninu hafi seinkað og það er ósköp eðlilegt. Ef við horfum til baka þá er alveg ljóst að það að færa verkefni á milli ríkis og sveitarfélaga er mjög flókið mál og það á að vera flókið mál. Eðli málsins samkvæmt hlýtur það að vera flókið. Við höfum ákveðna reynslu af því og ég vil nefna hér sérstaklega reynsluna af færslu grunnskólans frá ríkinu til sveitarfélaga sem menn voru sammála um að fara í. Þá var samið um tilfærslu á tekjustofnum og á þeim tíma var þokkaleg sátt um að þeir tekjustofnar sem fóru yfir væru eðlilegir og réttlátir. Auðvitað voru einhverjar raddir uppi um að þetta væru allt of litlir peningar, það koma alltaf einhverjar slíkar raddir upp, en alla vega náðust samningar.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og sveitarfélögin hafa að mörgu leyti borið sig illa undan því hvað grunnskólinn hefur kostað þau mikið. Þau hafa líka mjög mörg verið að setja miklu meira fjármagn í grunnskólann en lög gera ráð fyrir, þannig að hluti af ástæðunni fyrir umkvörtunarefni sveitarfélaganna er að vissu leyti þeim sjálfum að kenna. Til dæmis er ljóst að sveitarfélög í nágrenni höfuðborgarinnar sem maður hefur heimsótt sem þingmaður á því svæði eru að setja mun meira fjármagn í grunnskólann en lög gera ráð fyrir og krafist er af þeim. Þau gera það af fúsum og frjálsum vilja af því að þau vilja keppa um íbúa sín á milli og bjóða þar af leiðandi upp á glæsilegt skólastarf. Þetta er mjög vandmeðfarið.

Það var líka mjög mikil vinna í gangi í tíð fyrrverandi félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar, og þá munaði litlu að málefni fatlaðra yrðu færð yfir til sveitarfélaganna. Búið var að vinna mjög mikið í því máli en það strandaði að lokum einmitt á fjármagni. Þetta er því mjög flókið. Kannski má segja að fyrstu plön varðandi taktinn í því að efla sveitarfélögin núna í því átaki sem hér er til umræðu hafi að mörgu leyti verið bjartsýn, þannig að mér finnst ekki skrýtið að það þurfi að fresta þessu aðeins. Aðalatriðið er að verkefnið haldi áfram og leiði til góðrar niðurstöðu. Ef tekst að fækka sveitarfélögunum um helming þá er strax geysilega miklum árangri náð þar, hvað þá ef tekst að færa til verkefni líka og bæta tekjustofnana.

Það eru mörg mál sem hafa komið hér til umræðu og ég ætla að minnast í örfáum orðum á nokkur þeirra. Komið hefur fram að öll lagafrumvörp og reglugerðir sem snúa að sveitarfélögunum verði kostnaðarmetin og það á að gerast strax á næsta ári. Búið er að gera tilraunir í þessu sambandi bæði hjá umhverfisráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu. Þetta er nokkuð flókið, ég verð að viðurkenna það, og á sínum tíma fundum við fyrir því í umhverfisráðuneytinu að það er mjög erfitt að nálgast þetta verkefni af því að það er svo erfitt að meta kostnaðinn þegar maður veit ekki hvaða lausnir sveitarfélögin sjálf ætla að fara í. Það er mjög erfitt að meta kostnaðinn af því vegna þess að sveitarfélögin hafa að vissu leyti fengið frjálsar hendur um hvernig þau leysa verkefnin. En ég tel eðlilegt að þetta verði gert og menn verða þá bara að sjá kostnaðarmatið hlaupa á einhverju bili til að reyna að nálgast sannleikann varðandi það.

Það var líka athyglisvert að koma á upp starfshóp sem á að athuga hvort gerðar hafi verið of kostnaðarsamar kröfur til sveitarfélaganna og ég tel eðlilegt að það verði gert. Einnig á að endurskoða lögin um sveitarfélögin til þess að tryggja vandaða fjárstjórn. Það er mjög eðlilegt að það sé gert af því að við vitum að þó að sveitarfélögin reyni að standa sig vel þá er mjög brýnt að reglur varðandi fjárstjórn séu mjög góðar. Það er eðlilegt að menn líti til Norðurlandanna í því sambandi eins og komið hefur fram að gert verði. Ég styð það alveg eindregið.

Ég vil líka nefna hér aðeins vinnu tekjustofnanefndar. Það hefur komið fram að sú vinna hefur sýnt fram á að það er mjög mikill aðstöðumunur á milli sveitarfélaga, þau eru mjög ólík í eðli sínu. Sú sem hér stendur býr í sveitarfélaginu Seltjarnarnesbæ sem er minnsta sveitarfélag í landinu, 2 ferkílómetrar, og þar er bara uppselt. Þar er búið að byggja nánast alls staðar sem hægt er að byggja, fyrsta sveitarfélagið sem lendir í landþröng. Þar búa í kringum 4.500 íbúar en þar eru afar fá atvinnutækifæri. Það er mjög eðlisólíkt mörgum öðrum sveitarfélögum í landinu og maður skilur auðvitað að það gilda allt önnur lögmál um tekjustofna í slíku sveitarfélagi heldur en í mörgum öðrum sveitarfélögum.

Á sínum tíma þegar aðstöðugjaldið, sem tekið var af fyrirtækjum, var fellt niður og útsvarið var hækkað — það var sett gólf á útsvarið á sínum tíma — þá stórgræddi Seltjarnarnesbær. Það var vegna þess að það tapaðist svo lítið þegar aðstöðugjöldin voru felld niður, aðstöðugjöldin voru svo lítil af því að þar voru svo fá fyrirtæki. Á sama hátt hækkuðu tekjurnar, þær jukust svo mikið af því að útsvarið var hækkað og það býr frekar tekjuhátt fólk í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið græddi — og ég vil leyfa mér að nota orðið græddi — af því að tekjurnar jukust um 10% bara við þetta. Á hverju ári fékk Seltjarnarnesbær 10% í kassann út af þessari breytingu á meðan flest sveitarfélög fóru hugsanlega mun verr út úr þessu þótt ekkert þeirra tapaði kannski beint á breytingunni. En vegna eðlismunar sveitarfélaganna er auðvitað mjög mikilvægt að skoða tekjustofnana sem geta að einhverju leyti verið sveigjanlegir og þess vegna kemur jöfnunarsjóðurinn inn. (Gripið fram í.) Ég heyri að sumir hafa mikið horn í síðu jöfnunarsjóðsins en auðvitað er hann réttlætanlegur af því að það er svo mikill eðlismunur á sveitarfélögunum.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur farið hér í greinargóðu máli yfir þær tekjur sem nú munu færast bæði á milli ríkis og sveitarfélaga og innan sveitarfélaganna. Upphæðin hleypur á u.þ.b. 9 milljörðum samtals og stjórnarandstaðan hefur talað um að þetta sé hungurlús. Ég mótmæli því, ég tel ekki að þetta sé hungurlús, að ekki sé hægt að tala um upphæð sem hleypur á milljörðum sem einhverja hungurlús. Menn verða að muna að það fjármagn sem fer frá ríki til sveitarfélaga er ekki fjármagn sem verður til í einhverju ráðuneyti eða dettur af himnum ofan, þetta eru auðvitað skattpeningar borgaranna. Okkur ber skylda til að fara vel með þetta fjármagn og nota það á skynsamlegan hátt.

Miðað við þær tillögur sem liggja fyrir sé ég ekki annað en að þetta séu skynsamlegar tillögur og það sé vel hægt að líta á þær sem mjög gott skref inn í það átak sem við erum að vinna í, þ.e. að efla sveitarfélögin. Þetta er mjög gott skref. Ég sé í séráliti Lúðvíks Geirssonar, bæjarstjóra í Hafnarfirði, að hann talar um að þetta sé áfangi … (Gripið fram í.) Nú, ég hélt að búið væri að birta það. Þá er best að vitna ekki í það ef svo er ekki, en alla vega skilst mér að sérálitið sé nokkuð á þeim nótum sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa talað hér þannig að það fer alveg saman. En ég skal ekki vitna í það ef það er ekki orðið opinbert enn þá.

Það er skiljanlegt að mörgum þingmönnum sé heitt í hamsi og það er vegna þess að þeir eru margir sveitarstjórnarmenn sjálfir og þekkja þetta mál mjög vel og hafa margoft farið í gegnum þessa umræðu. Auðvitað vilja allir sveitarstjórnarmenn hafa góða tekjustofna, að sjálfsögðu. (Gripið fram í.) — Er þetta orðið opinbert? Það er nú gott. Þá er best að ég vitni í hið opinbera sérálit Lúðvíks Geirssonar. Í því séráliti segir hann að þetta sé ákveðinn áfangi, þ.e. þessi niðurstaða tekjustofnanefndar, en er ekki ánægður með niðurstöðuna samt og hefði viljað sjá miklu meira o.s.frv. Þetta er á svipuðum nótum og þingmenn hafa talað hér. Ég tel að þetta sé mjög góður áfangi og okkur ber skylda til þess að nýta fjármagnið skynsamlega, þetta eru skattpeningar borgaranna. Við vitum að það eru mörg verkefni sem þarf að leysa í samfélaginu, svo sem í vegamálum, í heilbrigðismálunum, í menntakerfinu o.s.frv. Við gætum nýtt þessar krónur margoft ef allir fengju það sem þeir vildu en þannig er nú ekki raunveruleikinn. Ég tel að þær upphæðir sem hér hefur verið sagt frá og kynntar séu ásættanleg niðurstaða.

Ég tel að við getum skoðað þetta mál nokkuð hratt í félagsmálanefnd vegna þess að frumvarpið er ekki umfangsmikið. Það er reyndar mjög skýrt og einfalt í sniðum. Þó að menn séu mjög ósáttir við niðurstöðu í öðrum málum sem snúa að þessu eins og í tekjustofnamálunum, ég heyri að stjórnarandstaðan er ekki sátt við það, þá tel ég að það eigi ekki að hafa áhrif á vinnslu málsins í félagsmálanefnd af því að allir sanngjarnir menn hljóta að sjá að það þarf að fresta kosningunum og það er öllum í hag, líka þeim sem ósáttir eru við niðurstöðu tekjustofnanefndar.

Það er eitt atriði í frumvarpinu sem ég mun láta skoða sérstaklega í félagsmálanefnd og það kemur fram hér í b-lið 1. gr., en þar segir:

„Við málsgreinina bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. þessarar málsgreinar getur samstarfsnefnd, sbr. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum, ákveðið með auknum meiri hluta atkvæða og að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið að atkvæðagreiðsla fari fram fyrir þann tíma, enda sé það mat nefndarinnar að tillaga um sameiningu viðkomandi sveitarfélaga fái næga kynningu meðal íbúa fyrir kjördag.“

Það kemur fram hér að hægt sé með auknum meiri hluta atkvæða að ákveða kjördag fyrir 8. október, þ.e. að flýta kjördegi, og það getur vel verið að einhverjir vilji gera það. Mér finnst mjög gott að það hafi orðið niðurstaða í lagasmíðinni að binda hann ekki algjörlega við einn dag, 8. október, heldur gefa þetta svigrúm. Þetta er mikið valfrelsi eins og einhver sagði og bætti svo við að orðið „valfrelsi“ væri ómögulegt orð, það væri mikið val eða mikið frelsi en ekki valfrelsi. En það sem ég var að velta fyrir mér eru orðin „með auknum meiri hluta“ af því að í athugasemdum við frumvarpið stendur:

„Skal nefndin hafa samráð við félagsmálaráðuneytið um þá ákvörðun og skilyrði er að slík samþykkt hljóti stuðning aukins meiri hluta nefndarmanna, þ.e. tvo þriðju hluta greiddra atkvæða.“

Ég hef velt því fyrir mér hvort nægjanlegt sé að orða þetta svona í lagagreininni „með auknum meiri hluta“ eða hvort þar þurfi að standa með tveimur þriðju hlutum greiddra atkvæða. Ég mun láta skoða það sérstaklega í félagsmálanefnd en það má vera að þetta sé almennt gert svona í öðrum lögum þar sem þarf aukinn meiri hluta þó að það sé afar sjaldgæft að þess þurfi. En mun ég láta skoða þetta sérstaklega.

Það er vilji minn að ná þessu máli í gegn helst fyrir páska. Það væri auðvitað mjög æskilegt ef hægt væri að koma því til nefndar sem fyrst, á mánudaginn eða á hefðbundnum tíma á þriðjudaginn, fá þangað gesti, taka málið til skoðunar og afgreiða það strax út úr nefnd þannig að hægt væri að gera það að lögum jafnvel fyrir páska eða strax á fyrsta degi eftir páska. Ég byggi þá skoðun mína á því að það er mjög mikilvægt fyrir alla aðila að þeir fari sem fyrst að undirbúa þessar kosningar og að hægt sé að senda bréf til sveitarfélaganna, til þeirra nefnda sem eiga að sjá um kosningarnar. Það er mjög brýnt að skapað verði rými til að senda þetta sem allra fyrst. Ég beini því til stjórnarandstöðunnar að íhuga það hvort hún sé ekki sammála því mati að æskilegt sé að klára þetta sem fyrst af því að ég tel að það séu ekki pólitískar átakalínur um frestunina. Það eru pólitískar átakalínur um allt annað sem snýr ekki að þessu frumvarpi.