131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[11:49]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með það hvað hv. þingmaður horfir skammt og virðist ekki komast út úr því sem er í dag. Það er töluvert ferli að geta komið sér út úr nákvæmlega því sem er að gerast í dag og horfa svolítið vel til framtíðar um það hvernig við viljum hafa hana. (SF: Hvaða ár?) Það er ekkert vandamál, við getum verið að tala um 10 ár þess vegna, eitthvað svoleiðis, sem við erum að spekúlera í fram í tímann, en ekki á morgun, ég er alveg sannfærður um að þetta þarf að gerast á lengri tíma. Við þurfum samt að byrja á því að stefna að hlutunum og það er það sem ég er að tala um.

Ég tek ekki undir með hv. þingmanni að það sé eitthvert vandamál að vera með það fyrirkomulag í því munstri sem við höfum því að það eru ýmsar leiðir í því að auka íbúalýðræðið. Ég sé þetta í tengslum við það að færa stórlega verkefnin frá ríkisvaldinu til sveitarfélaganna. Um það snýst málið. Við getum tekið dæmi úr grunnskólanum, hv. þingmaður nefndi hann, það er algjörlega borðleggjandi í dag að framhaldsskólinn á að vera hjá sveitarfélögunum. Framhaldsskólinn er í dag orðinn raunverulega svipaður því sem grunnskólinn var fyrir ekkert mjög löngu. Þetta er nærþjónusta sem á heima hjá sveitarfélögunum (Forseti hringir.) en það er ekki hægt að færa hann til sveitarfélaganna af því að sveitarfélögin eru allt of lítil til að taka við honum.