131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[11:52]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér talaði hv. þingmaður sem hefur reynslu af því að vera í sveitarstjórn og reka sveitarfélag og ég verð að segja að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með þá ræðu sem hér var flutt.

Í fyrsta lagi fjallaði hv. þingmaður um tillögur tekjustofnanefndar sem við heyrðum hér í fyrsta skipti í morgun, og sá ástæðu til að segja okkur hér í þingheimi að peningar yxu ekki í ráðuneytum. Ég held að flestir geri sér grein fyrir því að það gera þeir ekki. Hv. þingmaður sagði að það yrði að nýta fjármuni ríkisins skynsamlega, við yrðum að gera okkur grein fyrir því að þetta væru skattpeningar borgaranna, og ég gat helst skilið á hv. þingmanni að það væri ekki skynsamleg ráðstöfun að sveitarfélögin fengju tekjur úr hinum sameiginlega sjóði til að standa undir þeim lögboðnu verkefnum sem þau eiga að sinna. Verð ég að segja að ég var ansi hissa á að heyra svona fornaldarlegt sjónarmið en það er sjónarmið sem hefur kannski talsvert verið uppi í tekjustofnanefndinni hjá fulltrúum ríkisins, að þeir séu að verja einhverja fjármuni sem ríkið eigi fyrir þessum sveitarfélögum sem endilega vilja komast yfir peningana.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um nauðsyn þess að efla sveitarstjórnarstigið og allir eru sammála um það. Hv. þingmaður fellur í þá gryfju að halda að efling sveitarstjórnarstigsins snúist eingöngu um að fækka sveitarfélögum. Ég get alls ekki verið sammála hv. þingmanni um það. Ég held að efling sveitarstjórnarstigsins hljóti að snúast um það að færa verkefni til sveitarfélaganna og fjármuni sem duga til þess að reka þau verkefni þannig að sveitarfélögin verði sterkari heildir og sterkari rekstrareiningar en þau eru í dag. Ég veit engin dæmi þess að ef sameinuð eru tvö eða fleiri veik sveitarfélög sem eru rekin með halla á stóru landsvæði verði þau eitthvað sterkari eða öflugri bara við það að sameinast. Ég þekki engin slík dæmi.