131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[11:54]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri að Jón Gunnarsson hefur eitthvað misskilið ræðu mína eða snýr út úr viljandi. Þegar ég segi að ekki sé einhver stór pottur fullur af peningum sem hægt er að nota eins og maður vill án þess að hugsa um þá sem skattpeninga borgaranna er ég ekki þar með að segja að það sé ekki skynsamlegt að sveitarfélögin fái fjármagn. Ég bara átta mig ekki á því hvernig hv. þingmaður gat heyrt það út úr orðum mínum. Ég sagði einmitt að ég fagnaði tillögum hæstv. félagsmálaráðherra sem fela í sér margra milljarða útgjöld fyrir ríkissjóð. Ég fagnaði því þannig að ég er alls ekki á móti því að sveitarfélögin fái aukið fjármagn. Ég átta mig ekki á hvernig hv. þingmaður gat heyrt það út úr ræðu minni, alls ekki.

Menn þurfa hins vegar að semja og það er það sem verið er að gera. Það er auðvitað eðlilegt að sveitarfélögin sæki á ríkið og það er eðlilegt að ríkið verjist líka. Menn verða að mætast einhvers staðar á miðri leið og það er það sem er verið að reyna. Nú er komin lausn varðandi þessa tekjustofna og ýmis lagafrumvörp eiga eftir að fara í gegn sem snúa að þessu samkomulagi.

Ég hef heldur aldrei sagt, mér dettur ekki í hug að segja það, að efling sveitarstjórnarstigsins felist bara í því að fækka sveitarfélögum. Það er alls ekki þannig, það er miklu meira. Það felst líka í því að færa verkefni og tekjustofna á milli. Það er verið að skoða það einmitt í þessari verkaskiptanefnd.

Þetta eru alls ekki einföld mál. Hins vegar er ég alveg viss um að með því að fækka sveitarfélögum á Íslandi eflast þau. Það er samt ekki þannig að það sé bara það, það þarf miklu meira til. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það að sameina tvö mjög veik sveitarfélög hefur ekkert upp á sig. Það þarf að skoða verkefnin og tekjustofnana en við erum með of mörg sveitarfélög í dag og ég veit að Samfylkingin er sammála því.