131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[11:56]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé að ég og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir verðum bara að setjast niður yfir ræðu hennar þegar búið verður að skrifa hana upp og fara yfir hvað ég hef misskilið í henni. Ég kannast ekki við að ég hafi í sjálfu sér misskilið þá ræðu og mér fannst hv. þingmaður staðfesta það í andsvari sínu þegar hún talaði um að hér væri um að ræða milljarða útgjöld fyrir ríkissjóð. Ég lít ekki á þetta sem milljarða útgjöld fyrir ríkissjóð. Ég lít á þetta sem tekjur fyrir sveitarfélögin og þarna held ég að skilningur okkar á því sem um er að ræða kristallist kannski, þ.e. í orðanotkun í sambandi við tekjur til sveitarfélaga og skiptingu opinberra tekna milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég sat fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í haust og þar komu fram mjög sterkar kröfur um hvað þyrfti til til að sveitarfélögin yrðu rekstrarhæfar einingar. Þær tillögur sem hér liggja fyrir eru í engum dúr við þær sjálfsögðu óskir og kröfur sem komu fram á fjármálaráðstefnunni og ég verð afskaplega hissa ef einhverjir fulltrúar sveitarfélaganna sem þar töluðu og voru í þessari nefnd ætla að styðja þessar tillögur, og spyr hv. þingmann: Telur hún nægjanlega að gert nú?