131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:20]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að gera eina játningu. Hún er þessi: Ég skil hugaræsing hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Ég skil þennan hugaræsing vegna þess að ég veit að við höfum komið við mjög snöggan blett. Hv. þingmaður er landsbyggðarþingmaður. Hann veit að mörg sveitarfélög á landsbyggðinni búa við mjög þröngan kost. Ríkisvaldið hefur neitað að koma til móts við þau. Hann veit það líka að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram fjölmargar tillögur um hvernig megi gera þetta. Hann nefnir eina, og ég nefndi hana áðan líka, sem er að beina tekjuskattslækkuninni inn í útsvarshækkun hjá sveitarfélögunum. Ástæðan fyrir því að við vorum andvíg þessari skattalækkun var tvíþætt: Annars vegar töldum við ekki rétt við þær aðstæður sem við búum við núna að ráðast í skattalækkanir og hins vegar töldum við að samneyslan mætti ekki við því. Ef skattalækkun verður til þess að menn þurfa að draga úr samneyslu, rekstri heilsugæslustöðva, sjúkrahúsa, skóla o.s.frv., bitnar það á íbúunum. og einkum þeim tekjulægstu.

Við höfum sett fram aðrar tillögur um hlutdeild sveitarfélaganna í föstum tekjustofnum. Við höfum nefnt þá í tillögusmíði okkar og þingmálum. Ég skil, hæstv. forseti, að hér skuli maður þenja sig mjög upp því að við höfum komið við snöggan blett. Það væri óskandi ef hægt væri að virkja þennan hugaræsing inn í jákvæðan tillöguflutning af hálfu hv. þingmanns í stað þess að agnúast út í okkur.