131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:22]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, tillaga vinstri grænna kom við snöggan blett hjá mér vegna þess að ég hafði satt að segja í mikilli einlægni minni trúað því að þegar vinstri grænir kæmu fram með tillögur til lausnar vanda sveitarfélaganna væru þau að horfa til þess vanda sem sárastur væri í þjóðfélaginu, þ.e. vanda minni sveitarfélaganna sem hafa mátt búa við minnkandi tekjur. Það sýnir kannski best hversu bláeygur maður er, þrátt fyrir að ég hafi marga fjöruna sopið í íslenskum stjórnmálum er ég enn svo bláeygur.

Ég átti satt að segja ekki von á því að það yrðu vinstri grænir sem fyrstir manna kysu að leggja fram tillögu sem fyrst og fremst kæmi að gagni þeim sveitarfélögum sem hafa fengið stórauknar tekjur á síðustu árum og búa auðvitað ekki við nokkurn einasta vanda. Lengi má hins vegar manninn reyna. Hér liggur það fyrir að gjörvallur þingflokkur vinstri grænna hefur sameinast um tillögu um að auka ójafnræðið (Forseti hringir.) milli sveitarfélaganna í landinu. Þá höfum við það. Þá vitum við það (Forseti hringir.) og hana nú.