131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:30]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Einn eða fleiri. Við hljótum að sjálfsögðu að meta þau rök sem fram eru sett. Ég var að vísa í röksemdir, ég var að vísa í málefnalega afstöðu sem þarna kemur fram. Ég tel að Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, færi mjög góð rök fyrir máli sínu og ástæðulaust að menn geri lítið úr málflutningi hans. Menn geta verið ósammála rökum hans. Það er allt annar handleggur.

Síðan frábið ég mér þetta orðalag, kjaftháttur úti í bæ. Ég er að vísa í það sem fram kom á fundi félagsmálanefndar Alþingis af hálfu aðila úr stjórnsýslunni. Ég er að vísa í anda sem svífur yfir vötnum í þessari sameiningarvinnu. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að nefndin hefur rætt við sveitarstjórnarmenn. Að sjálfsögðu er hún að leita eftir lausnum til að ná fram sínu fyrir fram gefna markmiði. Ég hef hins vegar efasemdir um (Forseti hringir.) vinnubrögðin og lýðræðislega aðkomu og valdstjórn þessarar nefndar og löggjafar.