131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:35]

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Enn talar hv. þingmaður um vald, lögboðið vald. Ég vil bara ítreka það enn og aftur hvernig málið hefur verið unnið og að mínu mati með fullkomlega lýðræðislegum hætti. Hv. þingmaður talar um að sameiningarnefnd hafi mikið vald og geti gert frekari tillögur ef tillögur verða felldar í fyrstu umferð og það er rétt, en ég fullyrði að slíkar tillögur, ef til þess kæmi, yrðu unnar með sama hætti og verið hefur.

Ég ítreka að hér er um lýðræðislega leið að ræða. Það eru íbúarnir í viðkomandi sveitarfélögum sem ráða þessu en ekki sameiningarnefndin, hlutverk hennar er að koma með tillögur. Hún hefur gert það með eins góðum hætti og mögulegt hefur verið, en það eru íbúarnir sem ráða. Við vitum að í ýmsum sveitarfélögum eru skiptar skoðanir um þetta. En svona er þessu farið.

Síðan talaði hv. þingmaður um að menn eigi að makka rétt. Ég veit að hann getur útskýrt frekar hvað hann á við með því. Mér finnst það hanga svolítið í lausu lofti hvað hann á við og hann (Forseti hringir.) þarf að færa frekari rök fyrir þessari fullyrðingu sinni.