131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:53]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eftir því sem ég best veit hefur sameiningarnefndin ekki skilað neinum tillögum enn þá og fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni hafa ekki upplýst um hvaða tillögur verða fram settar, því mér skilst að þeir séu bundnir trúnaði um tillögurnar þangað til þær eru lagðar fram.

Fram kom í ræðu hv. þingmanns að verið væri að fara í að sameina sveitarfélög að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er alveg rétt, eins og fram kom hjá hv. þingmanni, að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur verið áhugasamt um að efla sveitarstjórnarstigið og stækka sveitarfélögin. En að eingöngu hafi komið fram ósk um það frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að sameina sveitarfélög og það sé ástæðan fyrir því að við séum að fara af stað með sameiningarátakið, ég er fákunnandi ef eingöngu hefur verið beðið um það af hálfu Sambandi íslenskra sveitarfélaga á Íslandi að sameina sveitarfélög. Ef ekkert hefur verið minnst á að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga og ekkert verið kvartað yfir þeirri tekjuskiptingu sem nú ríkir verð ég að segja eins og er að fulltrúar okkar í Sambandi íslenskra sveitarfélaga í viðræðum við ríkið standa sig ekki ef þeir koma ekki fram þeirri óánægju sem er í grasrótinni með tekjuskiptinguna og ef þeir koma ekki fram þeirri óánægju sem er í grasrótinni með verkaskiptinguna.

Hv. þingmaður sagði að 70% af verkefnum væri hjá ríki og 30% hjá sveitarfélögum og menn yrðu að gera átak í að breyta því. Ég hélt að það væri það sem menn ætluðu að gera í átakinu, því það eitt að stækka sveitarfélög sem eru í rekstrarlegum vanda, eiga ekki tekjur, hafa ekki tekjur fyrir gjöldum og safna halla frá ári til árs, það að sameina þau í stærra sveitarfélag að öllu óbreyttu eflir ekki sveitarstjórnarstigið. Það getur ekki eflt sveitarstjórnarstigið að steypa saman skuldugum og veikum sveitarfélögum án þess að nokkuð sé gert í tekjuskiptingu og án þess að nokkuð sé gert í verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Þessu hlýtur hv. þingmaður að vera mér sammála um.