131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:59]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta hefur verið og mun verða rætt í þingflokki framsóknarmanna eins og hjá Samfylkingunni. Ég tek undir þau framtíðarsjónarmið sem talsmaður Samfylkingarinnar nefndi. Það er akkúrat framtíðin sem við eigum að horfa á, horfa á eflingu sveitarstjórnarstigsins með því að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Til þess að það sé hægt verðum við að stækka sveitarfélög eins og margsinnis hefur komið fram. Til þess að það sé hægt þarf líka að finna réttan verðmiða á þau verkefni sem fara frá ríki til sveitarfélaga.

Nú hefur komið fram í máli stjórnarmanna hjá Sambandi sveitarfélaga að tekjuskiptingin, í kjölfar þess að grunnskólinn fór yfir, hafi verið rétt þótt ýmsir hafi fullyrt að svo væri ekki. Talsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga fullyrða að svo hafi verið þegar upp var staðið. Til þess að verkefnin geti farið yfir þá þurfa sveitarfélögin að vera af þeirri stærðargráðu að þau ráði við verkefnin. Tekjuskiptingin þarf að vera óumdeild og að því hafa menn unnið.

Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra liggja fyrir hjá ríkisstjórninni tillögur verkefnisstjórnar, sem m.a. formaður Sambands sveitarfélaga situr í, um hvaða verkefni mætti flytja frá ríki til sveitarfélaga. Ég tel að nái þau að verða að veruleika og færast yfir til sveitarfélaganna eins og gerast á í náinni framtíð samkvæmt upphaflegu plani þá sé um mikla byggðaaðgerð að ræða. Við erum að tala um að efla sveitarstjórnarstigið og auka þjónustustig innan sveitarfélaganna með þessu. Þeirri skoðun deili ég með hv. þingmanni.