131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Staða íslensks skipasmíðaiðnaðar.

[13:54]

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Íslenskur skipasmíðaiðnaður situr ekki við sama borð og erlendur skipasmíðaiðnaður. Það er enn þá skekkja upp á 4–5% þrátt fyrir skýrsluna sem iðnaðarráðherra er loksins komin með í hendurnar en ekkert hefur verið gert með síðustu þrjú árin. Opinberir skattar á Íslandi af þessari atvinnustarfsemi skekkja samkeppnishæfni. Eigum við að taka eitt dæmi, stimpilgjöldin? Segjum sem svo að íslensk skipasmíðastöð þyrfti að taka t.d. 200 millj. kr. að láni til að framkvæma svona verk. Þá eru 3 millj. í stimpilgjöld til ríkissjóðs. Flutningsskattarnir á efni og aðföngum í slíka vinnu, sama hvort það er frá Evrópu til Íslands eða frá Reykjavík til Akureyrar, eru svimandi háir. Ríkissjóður tekur því til sín skatt af þessari starfsemi á einn eða annan hátt sem skekkir samkeppnishæfnina.

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að varðskipin komi inn í þessa umræðu, slík er reiði og hneykslun manna á því sem hér hefur gerst. Ég verð því miður að gagnrýna mjög vinnubrögð Landhelgisgæslunnar og ráðgjafa hennar við þetta mál, þ.e. að gera kostnaðaráætlun upp á rúmar 190 millj. og fá tilboð í verkið upp á 274 með eldgömlum útboðsgögnum og segja svo um að það sé vegna hækkunar á stáli. Stál er sáralítill þáttur í þessu verkefni. Ég er því mjög undrandi á þessum vinnubrögðum Landhelgisgæslunnar. Má ég minna á það, virðulegi forseti, að verkefnið sem var unnið 2001 fór 12% fram úr áætlun og hellingur af aukaverkum kom þar inn sem var ekki í útboðsgögnum sem ég leyfi mér að ætla að hafi öll verið fyrirsjáanleg. Af hverju var það ekki í útboðsgögnum?

Ég tek undir með hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur og ég vil segja það líka að mér finnst full ástæða til að athuga hvort ekki sé eðlilegt að láta Ríkisendurskoðun fara í gegnum vinnulag Landhelgisgæslunnar, vinnuferla (Forseti hringir.) í þessu máli. Ég tel fulla ástæðu til þess.