131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Staða íslensks skipasmíðaiðnaðar.

[13:56]

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Ég tek undir það að hörmulegt var að þetta verk skyldi ekki vera unnið á Akureyri, viðhald og endurbætur á varðskipunum, eins og við höfðum öll vonast eftir. Þetta er orðið langt stríð fyrir Slippstöðina á Akureyri og skipasmíðaiðnaðinn í heild sinni. Auðvitað hefur hann orðið fyrir mjög þungum áföllum vegna þess að hann hefur keppt við iðnað niðurgreiddan í öðrum löndum.

Mér þótti það athyglisvert sem fram kom í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra að hún skuli telja að ekki sé allt með felldu um samkeppnisstöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar og skipasmíðaiðnaðar á hinu Evrópska efnahagssvæði. Hið sama hefur raunar komið fram hjá Samtökum iðnaðarins. Þannig skildist mér á hæstv. ráðherra að á ný hefðu verið teknir upp styrkir til skipasmíðaiðnaðar á Evrópska efnahagssvæðinu, að vísu afmarkaðir styrkir, og til þróunarstarfsemi, skildist mér, í nýsmíði skipa. En jafnframt virtist mér á hæstv. iðnaðarráðherra að svo virtist sem þetta nýja styrkjakerfi nýttist í óeðlilegri samkeppni, m.a. varðandi það verk sem nú var boðið út fyrir Landhelgisgæsluna þannig að styrkirnir nýtist í sambandi við eðlilegt viðhald eða endurbætur á skipum. Ég tel óhjákvæmilegt af þessum sökum að kanna til þrautar hvort brögð séu í tafli, hvort hin pólska skipasmíðastöð hafi gengið á svig við reglur Evrópusambandsins og hvort við séum enn að berjast við Evrópusambandið á óeðlilegum grundvelli vegna þess að aðrar þjóðir standa ekki að samkeppnisreglunum með sömu festu og við. Undir því er framtíð íslensks skipasmíðaiðnaðar komin að við höldum betur á okkar málum næst og gefum skipasmíðaiðnaðinum (Forseti hringir.) tækifæri til að þroskast og þróast.