131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Staða íslensks skipasmíðaiðnaðar.

[14:00]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég þakka umræðuna. Hún sýnir fram á að enn er pottur brotinn í að tryggja réttarstöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar gagnvart samkeppni við skipasmíðar í öðrum löndum.

Ég vil í upphafi orða minna benda á þau góðu vinnubrögð sem hæstv. ráðherra hefur viðhaft í því að beita sér fyrir samráði við Samtök iðnaðarins árið 2002 og vinna tillögur til að fara eftir og eru til úrbóta og sömuleiðis að vinna þá skýrslu sem birtist í byrjun mars um atriði sem lutu að samkeppnisstöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar og er áfátt miðað við það sem er erlendis. Mér finnst þetta hafa verið góð vinnubrögð en það vantar að fylgja þeim eftir. Þar virðist potturinn vera fullkomlega brotinn, eða eins og segir í ályktun frá Samtökum iðnaðarins sem birtist í gær, með leyfi forseta:

„Því miður er eins og allur þessi ásetningur yfirvalda hafi gufað upp þar sem bæði útboðsgögn, samningsferlið og útreikningur í verki þessu“ — sem við vorum að ræða áðan — „eru sama marki brennd og fyrr.“

Enn fremur benda Samtök iðnaðarins á að það vanti vilja stjórnvalda til að taka á málinu. Það er ekki nóg að setja reglur og lög og benda á tillögur til úrbóta, ef ekkert er gert. Ég gagnrýni að ekkert skuli vera með samkomulagið gert. Ég styð þá hugmynd sem hv. þm. Halldór Blöndal nefndi að kannað verði hvort útboðið sem gert var á Akureyri sé löglegt, hvort iðnaður erlendis njóti þar niðurgreiðslna sem skekki samkeppnisstöðuna þannig að það útboð verði lægra. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Þetta er (Forseti hringir.) alla vega nauðsynleg umræða og vonandi kemst íslenskur skipasmíðaiðnaður betur frá þessu næst.