131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[14:23]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi niðurstaða náðist. Það er þannig þegar menn taka til við nefndarstörf og fjalla um ákveðna málaflokka að þá ræða menn saman. Þetta varð niðurstaðan eftir langar umræður. Það hefur komið fram að nefndin starfaði talsvert lengi og margar tillögur komu fram og menn urðu ásáttir um nákvæmlega þessar tillögur.

Ég held að þetta hafi verið rétt skref. Mér finnst þetta ekkert smáskref. Mér finnst það mjög stórt skref. Þarna eru ýmis mál sem ríki og sveitarfélög hafa rætt um nokkuð lengi. Við getum nefnt undanþágu frá fasteignagjöldum sem nú er felld niður og fleiri mál sem þar eru varanlega komin til hafnar og það skiptir stóru máli. Menn gera lítið úr verulegum ávinningi sem náðst hefur fyrir sveitarfélögin, fyrir sveitarstjórnarstigið í heild, 9 milljarðar kr. á þremur árum, varanlega 1,5 milljarðar eftir það. Þetta er ekkert smáskref, hv. þm. Jón Gunnarsson. Það á ekki að gera lítið úr þeirri vinnu sem nefndin skilaði. Auðvitað eru tillögur sveitarstjórnarmanna þar á bak við, nákvæmlega eins og tillögur fulltrúa ríkisins. Þetta er eðlileg niðurstaða úr slíku nefndarstarfi.