131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[14:47]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til að hefja mál sitt á því að taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Atla Gíslasyni, og fagna fram kominni þingsályktunartillögu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vegna þess að því er auðvitað ekki að neita að fasteignaskatturinn er sannarlega einhver ósanngjarnasti skattur sem á er lagður, einkanlega nú þegar hann hefur verið að þyngjast með hækkandi fasteignaverði og leggst á fólk óháð tekjum þess eða efnahag og fylgir aðeins þeirri miklu þenslu sem verið hefur á fasteignamarkaðnum undanfarið. Verður spennandi að heyra viðbrögð hæstv. félagsmálaráðherra við því.

Þingsályktunartillagan er náttúrlega ekki til umfjöllunar heldur tiltölulega lítið frumvarp um að flytja dagsetningu á sameiningarkosningum til haustsins. Um þá litlu breytingu hafa spunnist talsverðar umræður en hún er því miður til vitnis um að hæstv. félagsmálaráðherra hefur í aðalatriðum lekið niður í þeim metnaðarfullu áformum sem hann lagði upp með í upphafi starfs síns sem félagsmálaráðherra, um að efla mjög sveitarstjórnarstigið og standa fyrir stórfelldri sameiningu sveitarfélaga og vinna að úrbótum í tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og taka á þeim vanda sem þar var. Það reynist einfaldlega á útmánuðum þessa vetrar svo að félagsmálaráðherra hefur ekki haft afl til að fylgja eftir erindi sínu, ekki náð að velta steininum upp brekkuna heldur veltur bara niður hana með steininn í fanginu og biður um að fá lengt í ólinni sem hann sneið sér til að efna yfirlýsingarnar með atkvæðagreiðslum nú í apríl sem á að fresta fram í október og verða trúlega miklu umfangsminni en hann hugði í upphafi.

Ég veit hins vegar ekki hvort vert er að elta mikið ólar við félagsmálaráðherra um þetta því ég trúi að hann hafi haft vilja til að bæta úr þeirri slæmu stöðu sem sveitarfélögin eru í. Ég hygg að hæstv. ráðherra sé fullkomlega meðvitaður um þá erfiðu stöðu sem er víða um land í sveitarfélögunum, en það er kunnara en frá þurfi að segja að forustumenn Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni hafa staðið mjög fast gegn almennum úrbótum fyrir sveitarfélögin í fjárhagsefnum. Hæstv. félagsmálaráðherra virðist bara hafa fengið að naga þröskuldinn í fjármálaráðuneytinu í því efni og hvorki komist lönd né strönd með umkvartanir um stöðu sveitarfélaganna og komi þess vegna með jafnlítið úr leiðangri sínum og raun ber vitni, þ.e. með óverulegar leiðréttingar. Að vísu er ástæða til að fagna því að ríkið ætli að fara að borga fasteignaskatt af eignum sínum. Það er 600 millj. kr. aðgerð og síðan eru kannski 200–300 millj. í varanlegum árlegum ávinningi umfram það sem ástæða er til að þakka ráðherranum fyrir að koma inn með en er auðvitað bara brot af því sem sveitarfélögin vantar, trúlega ¼ af því sem þyrfti ef það ætti að leysa að einhverju leyti úr stöðu þeirra og skapa aðstöðu til að flytja þjónustuverkefni frá ríki til sveitarfélaga, stuðla að uppbyggingu og eflingu sveitarstjórnarstigsins, stuðla að aukinni valddreifingu og ýmsum metnaðarfullum hugmyndum sem ég veit að blunda í brjósti hæstv. félagsmálaráðherra eins og margra annarra þingmanna í þessum sal en geta auðvitað ekki orðið að veruleika við núverandi fjárhagsaðstæður sveitarfélaganna.

Ég vil hins vegar lýsa því sem minni skoðun að sú umræða sem hér fer fram í dag og ítrekað um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga sé algerlega á misskilningi byggð, einfaldlega á þeim grundvallarmisskilningi að alþingismenn og ráðherrar eigi að fjalla um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, eins og þeir eigi að vera einhverjir niðurjöfnunarmenn á rekstraróhagræði ólíkra sveitarfélaga og eins og það eigi að vera verkefni Alþingis og ríkisstjórnarinnar að búa til eitthvert ríkismeðaltalsútsvar fyrir landið allt sem öll sveitarfélögin skuli fara eftir. Það er náttúrlega endileysan og ógöngurnar sem málið er í, sú viðleitni að búa til eina landsmeðaltalsútsvarsprósentu sem allir skuli fara eftir vegna þess að það er einfaldlega ekki hægt. Sveitarfélög eru ólík, verkefni þeirra eru ólík, þarfir íbúa eru ólíkar og kostnaður er ólíkur. Það er ekkert eðlilegra en að tekjur sveitarfélaga endurspegli það og að útsvar sé breytilegt frá einu sveitarfélagi til annars. Þetta er reynt að leiðrétta með hverjum plástrinum á fætur öðrum og uppi sitja menn með sístækkandi millifærslusjóði sem við vitum af langri reynslu að eru sannarlega ekki til farsældar fallnir. Millifærslusjóðirnir stækka og stækka af því að menn eru að reyna að gera hið ómögulega, að búa til hið eina sanna ríkisútsvar sem öll sveitarfélögin skuli innheimta.

Alþingi og ríkisstjórn eiga auðvitað ekki að ákveða útsvar sveitarfélaga. Sveitarstjórnirnar eiga náttúrlega að ákveða útsvar sitt sjálfar því það eru ekki alþingismennirnir í þessum sal eða ráðherrarnir á þessum bekkjum sem borga útsvarið í hverju og einu sveitarfélagi. Það eru íbúarnir í sveitarfélögunum og starfandi sveitarstjórnir í landinu sem eiga að ákveða útsvarsprósentuna hver fyrir sig og eiga það við íbúa sína hvort hún er hæfileg eða ekki. Ef þær ganga of langt í því að innheimta útsvar skipta íbúarnir um sveitarstjórn í kosningum og eiga það beint og milliliðalaust við sína sveitarstjórn. En þetta mál er ekki eilíf þrætubók á Alþingi þar sem alþingismenn og ráðherrar skammta sveitarfélögunum úr hnefa hvað þeim sýnist vera hæfilegt landsmeðaltal til framfærslu fyrir sveitarfélögin. Útsvarstekjur sínar eiga sveitarfélögin einfaldlega að geta ákveðið sjálf.

Það getur verið sjónarmið að þau þurfi að hafa ríkulegt aðhald í því að fara ekki offari. Það sjónarmið ber auðvitað að virða því varlega skal fara í skattheimtu. En ef rík nauðsyn er á því að veita þeim aðhald í þessu efni held ég að miklu nær sé að gera eins og við þekkjum frá ýmsum nágrannaríkjum okkar, að láta það aðhald koma frá íbúunum í sveitarfélaginu en ekki frá Alþingi eða ríkisstjórn, t.d. þannig að sveitarfélag geti því aðeins hækkað útsvarsprósentu að það fái það samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu af íbúunum sem greiða eiga skattinn. Um það eru auðvitað mýmörg dæmi um heim allan og ég held að það sé miklu farsælla að íbúarnir í hverju og einu sveitarfélagi eigi það beint við sveitarstjórn sína hvert útsvarið er og menn hafi frelsi til þess í sveitarfélögunum að ráða því verkefni og afla til þeirra fjármuna ef fyrir því er meirihlutavilji í hverju og einu sveitarfélagi.

Ef sveitarfélögin nytu þess sjálfsagða frelsis að fá að eiga það við íbúa sína hver útsvarsprósentan ætti að vera að réttu lagi og standa og falla í kosningum með þeirri ákvörðun þyrfti einfaldlega ekki þessar löngu og leiðinlegu umræður á Alþingi um það hvort sveitarfélögin eigi að fá milljarði meira eða minna, af því að Alþingi á ekki að vera neinn milliliður á milli íbúanna í sveitarfélögunum og sveitarstjórnanna heldur eiga samskiptin að vera bein og milliliðalaus í hverju sveitarfélagi fyrir sig vegna þess að hvert sveitarfélag í landinu er einstakt og sérstakt og þar eru aðstæður og verkefni einstök og sérstök og þau mál þarf að ræða í því sveitarfélagi milli þeirra sem þar búa og stjórna, en ekki að ákveða á Alþingi Íslendinga eitthvert eitt allsherjarríkislandsmeðaltal um það hvað menn megi hafa í tekjur og hvað ekki. Það er einfaldlega ástæðan fyrir þeim ógöngum sem menn eru komnir út í. Til hvers leiðir það? Það er ekki hægt að reka öll sveitarfélög í landinu á sömu útsvarsprósentum og þá byggja menn upp Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem vex og vex, milljarðar á milljarða ofan hrúgast þar inn af skattpeningum og er úthlutað til sveitarfélaganna eftir æ flóknari reglum. Þær reglur verða flóknari og flóknari með hverju árinu. Því var lengi haldið fram að það væru aðeins tveir menn í landinu sem skildu þær reglur til fulls og ég efast um að sú fullyrðing standist enn þann dag í dag. Ég held að það sé aðeins einn maður í landinu sem skilur þær til fulls. (Gripið fram í: Hver?) Sá maður er undir handarjaðri hæstv. félagsmálaráðherra og ráðherrann býr auðvitað að því.

Þegar sveitarfélögin koma á haustin fyrir fjárlaganefnd hvert á fætur öðru, hringinn í kringum landið, ströndina alla þá skilja þau ekkert í þessum reglum. Þau átta sig á því að þau fá minni peninga í ár en þau fengu í fyrra og þau gera sér grein fyrir því að eitthvað hefur breyst í reglunum sem gerir það að verkum að þau fá miklu minni pening en síðast. En jafnvel sveitarfélög sem eiga allt sitt undir jöfnunarsjóðnum átta sig ekki fyllilega á því hvers vegna svo sé komið vegna þess að menn átta sig ekki fyllilega á þeim reglum sem þar eru í gangi og sú verður alltaf raunin með millifærslusjóði sem eiga að reyna að plástra öll sár og lappa upp á alla galla. Slíkir sjóðir eiga auðvitað að einhverju leyti rétt á sér og auðvitað eru þeir þættir í dreifðu og litlu landi eins og Íslandi þar sem óhjákvæmilega eru til fámenn sveitarfélög og dreifð þar sem sérstaklega þarf að veita fjárstuðning til. En það er ákaflega óheppilegt eins og í okkar tilfelli þar sem millifærslusjóðir vaxa ár frá ári og bólgna og belgjast út og eru orðnir að forsendu fyrir framfærslu hjá fjölda sveitarfélaga hringinn í kringum landið.

Við verðum að reyna að komast út úr þessum ógöngum og þessum eilífu umræðum um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga þar sem verið er að togast á eins og í einhverju hagsmunastríði yfir sömu kökunni og skapa sveitarfélögunum einfaldlega það sjálfsforræði sem sjálfsagt er til að leggja á það útsvar sem sveitarfélögin þurfa og leyfa síðan sveitarstjórnunum einfaldlega að eiga það við íbúa sína og útsvarsgreiðendur sína hvort þeir eru tilbúnir til að greiða það útsvar sem upp er sett. Og ef þeir eru ekki tilbúnir til þess skipta þeir bara um sveitarstjórn, því þessum málum á ekki að miðstýra héðan. Sjálfsforræði og sjálfstæði sveitarfélaga hefur reynst okkur farsælt í uppbyggingu sveitarfélaganna, valddreifing hefur reynst nágrönnum okkar og okkur sjálfum í þessu efni farsæl og við eigum að taka fleiri skref í þá átt og við eigum með þeim hætti að flytja ákvörðunarvaldið og útsvarsstofninn frá þinginu og út í sveitarfélögin.