131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[15:24]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði að ekki hefði verið mikill taktur í því sem ég sagði áðan. Mér fannst takturinn vera bæði hraður og góður og jafn, en hins vegar fannst mér ýmislegt ákaflega fróðlegt sem hv. þingmaður var að tala um, eins og t.d. þegar hann sagði að jöfnunarsjóðurinn væri notaður of mikið til að halda lífi í minni sveitarfélögum. Hvað er hv. þingmaður að segja? Hann er að segja okkur að litlu sveitarfélögin úti á landi hafi það svo ofboðslega gott eins og þau hafa það í dag að þau sjái í hendi sér að hagur þeirra muni versna við það að sameinast. Það er það sem hv. þingmaður var að segja. Og ég held að ýmsir af hans góðu flokksmönnum — ég þekki t.d. nokkra sem yrðu dálítið undrandi að heyra þann boðskap úr ræðu hv. þingmanns að staða litlu sveitarfélaganna sé rosalega góð, þau hafi það svo fínt í svo góðu skjóli vegna þess að jöfnunarsjóðurinn moki alltaf í þau peningum að þau geti bara setið sæl og róleg og hafi engan áhuga á því að sameinast.

Ég var að segja, virðulegur forseti, að ég vildi gjarnan að sameining sveitarfélaga ætti sér stað til að þau yrðu öflugri. En það verður auðvitað að setja þessa hluti í byggðalegt samhengi og það sem ég var að leggja áherslu á er það að þegar sameiningin á sér stað hljóta sveitarstjórnarmenn alveg sérstaklega, vegna þess að þeir bera ábyrgð, ekki síst gagnvart íbúum sínum, að gera sér grein fyrir því hvort þessi sameining leiði til þess að byggðasvæði þeirra verði öflugra. Ef það er niðurstaða þeirra að svo verði ekki, t.d. að sameining sveitarfélaga leiði til fækkunar opinberra starfa eða að sameining sveitarfélaganna muni ekki tryggja það að íbúarnir hafi bærilegan aðgang að sinni eigin stjórnsýslu, hljóta þessir sömu sveitarstjórnarmenn auðvitað að hafa mikla fyrirvara. Það er ekki þar með sagt að þeir séu að tala um hraðbrautir heim á hvern bæ. Ég veit að hv. þingmaður kemur úr kjördæmi þar sem verið er að búa til fín jarðgöng núna en ég er einfaldlega að tala um það, virðulegi forseti, að það verði að tryggja að menn hafi bærilegan aðgang að þessari stjórnsýslu sinni. Það er ákveðin forsenda sem þarf að leggja og það er þetta sem ég var að árétta vegna þess að forsendan fyrir því að hægt verði að sameina er að íbúarnir sjálfir vilji það og sjái hagsmunum sínum þannig betur borgið.