131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[15:28]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður komist ekki fram hjá þessu máli með því að skauta á ógnarhraða.

Það er alveg rétt, ég þekki vel þessa skýrslu sem Vífill Karlsson á Bifröst samdi og hv. þm. Sigurjón Þórðarson vill fá að ræða utan dagskrár. Við tökum þá umræðu seinna. Ég þekki hana miklu betur en af einhverjum óljósum blaðafregnum sem hv. þingmaður er að vitna til. (Gripið fram í.)

Það er alveg rétt að við vitum að það er mikið ójafnræði varðandi opinber störf. Úti á landsbyggðinni krefjast menn þess að hlutur landsbyggðarinnar í opinberum störfum vaxi. Það sem ég var að segja var auðvitað mjög uppbyggileg gagnrýni, eða uppbyggileg ábending öllu heldur, að ef menn vilja ná alvöruárangri í sameiningu sveitarfélaga — og það vil ég — er ein forsendan sú að við tryggjum að sú sameining leiði ekki í neinum tilvikum til þess að opinberum störfum á landsbyggðinni fækki. Ég þekki víða mjög vel til á landsbyggðinni. Ég hef verið þingmaður lengi og er þingmaður stórs kjördæmis. Mér er alveg ljóst að í ýmsum tilvikum mundi sameining sveitarfélaga leiða í sjálfu sér til fækkunar opinberra starfa og það er það sem ég vara við og það er þetta sem ég er að segja að við verðum að hafa í huga, hinar byggðalegu forsendur, hið byggðalega samhengi og við verðum að gæta þess að sameining sveitarfélaganna leiði fremur til fjölgunar opinberra starfa en fækkunar.