131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[15:33]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála ýmsu í máli hv. þingmanns. En það sem skilur á milli er að hv. þingmaður vill ekki ræða raunverulegan vanda byggðanna. Hann vill ekki ræða t.d. kvótakerfið. Það er of heilagt og það má þess vegna rústa stöðum, jafnvel heimabæ hans, Bolungarvík. Hann þorir ekki að horfast í augu við þá staðreynd að ef hér væri sóknarmarkskerfi þá vegnaði sjávarbyggðunum miklum mun betur. Þetta eru staðreyndir sem blasa við öllum. Þetta kerfi er svo heilagt í augum hv. þingmanns að hann neitar að horfast í augu við þá augljósu staðreynd að það hefur skilað helmingi minni afla á land en fyrir daga kerfisins. Hvers vegna eru menn að halda í kerfi sem hefur rústað heimabyggð þeirra? Ég spyr og ég fæ örugglega ekki svar hér.