131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[15:44]

Guðjón Hjörleifsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir greinargóða framsögu hans fyrr í dag. Ég átti þess kost að starfa í sameiningarnefnd sem hafði það markmið að efla sveitarstjórnarstigið. Það var skemmtilegt verkefni, mikil samvinna og góð samstaða hefur verið í nefndinni.

Nefndin telur nauðsynlegt að færa kosningar um sameiningu til 8. október. Nefndin var tilbúin með tillögur sínar á eðlilegum tíma en ákvað að bíða með að skila lokatillögum. Mörg sveitarfélög höfðu óskað eftir að fresta því að kjósa um sameiningarmál þar til tekjustofnanefnd lyki störfum. Nú er þeirri vinnu lokið. Þá liggur fyrir að ekki er nægur tími til stefnu til að tillögur geti hlotið næga kynningu og umfjöllun í viðkomandi sveitarfélagi fyrir kjördag.

Það er einnig rétt, eins og fram kom hjá hæstv. félagsmálaráðherra, að undirbúningur atkvæðagreiðslu um tillögur sameiningarnefndar er kominn misvel á veg. Það var lykilatriði í þessu ferli að tekjustofnanefnd næði lendingu í þessu máli. Þegar líða tók á kom greinilega í ljós hjá sveitarstjórnarmönnum að þeir lögðu alla áherslu á að vita hvað væri í pakkanum frá tekjustofnanefnd þannig að umræða um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga varð út undan. Lykilatriði að góðu samstarfi nefndarinnar var að hafa mikið og gott samráð við sveitarstjórnarmenn við vinnslu tillagna, m.a. með heimsóknum. Ég ætla ekki að fara mikið í það sem gerðist í sameiningarnefnd en sný mér að tillögum tekjustofnanefndar, sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur kynnt mjög vel. Við erum að tala um 2,1 milljarð á næstu þremur árum í jöfnunarsjóðinn. Við erum að ræða um undanþágu ríkissjóðs frá greiðslu fasteignaskatts af eignum sínum, að undanþágan falli niður og álagning komi til framkvæmda á næstu þremur árum. Þetta er varanleg tekjuaukning um 600 millj. kr. á ári til sveitarfélaga í auknar tekjur.

Ég vil sérstaklega fagna því að varasjóði húsnæðislána verði heimilað að auka rekstrar- og söluframlög vegna félagslegra íbúða í eigu sveitarfélaga og aðstoða við úreldingu þeirra. Þetta er mjög mikilvægt en félagslega íbúðakerfið hefur verið mikil baggi á mörgum sveitarfélögum. Það þarf samt sem áður að vanda þetta vel. Þegar félagslegar íbúðir fara á almennan markað getur það haft mikil áhrif á húsnæðisverð úti á landi. Það er viðbúið að verð á minni íbúðum lækki verulega. Það er því nauðsynlegt að þær íbúðir komi inn á markaðinn í áföngum. Það er líka mjög ánægjulegt að skylda sveitarfélaganna til greiðslu í varasjóð skuli afnumin.

Það er jákvætt að gefa frest til fráveituframkvæmda í sveitarfélögum til ársins 2008. Það gefur svigrúm til að leita ódýrari lausna í fráveitumálum. Þess hefur verið krafist af sveitarfélögum að þau fari í miklar framkvæmdir, bæði samkvæmt lögum um einsetningu grunnskóla og fráveituframkvæmdir.

Breytingin á lögum um skráningu og mat fasteigna og tekjustofna sveitarfélaga er eðlileg og byggist á jafnræði. Það er ekki hægt að miða eingöngu við álagningu næstu áramóta á eftir ef fasteignamat fer fram á árinu. Það ríkir ekki jafnræði milli aðila sem fær fasteign metna í janúar og aðila sem fær fasteign metna í desember séu álagðir frá sama tíma.

Það er mjög eðlilegt að fara yfir hlutverk og reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þegar fyrir liggur hvernig sameiningarkosningar hafa farið. Þegar við ræddum við sveitarstjórnarmenn um sameiningarmál var töluvert rætt um hvernig jöfnunarsjóðsframlögum yrði háttað, sérstaklega hjá minni sveitarfélögum. Þau töldu sig hafa styrk til sameiningar ef tekjur héldu sér áfram. En það er komið til móts við sveitarfélögin. Andvirði samningsins er rúmir 9 milljarðar kr. til ársins 2008 og því ber að fagna.

Þegar tveir aðilar deila þá fara menn með væntingar inn í samningsgerðina. Sumir setja fram miklar kröfur og aðrir ætla að leika varnarleik. Það gerist alltaf þegar tveir aðilar deila. Þetta þekkjum við líka úr karphúsinu. En báðir aðilar þurfa að slaka til, eins og þeir hafa gert. Í bókun tekjustofnanefndar segir m.a. að ekki sé í sjónmáli önnur sameiginleg niðurstaða tekjustofnanefndar en sú er byggist á nýjum tillögum fulltrúa ríkisins.

„Umræddar tillögur ganga lengra en þær tillögur sem fulltrúar ríkisins hafa áður lagt fram en skemmra en tillögur fulltrúa sveitarfélaganna. Fulltrúar sveitarfélaganna líta á þessar tillögur sem áfanga í áttina að frekari eflingu tekjustofna sveitarfélaga. Fulltrúar ríkisins líta á tillögurnar sem það ýtrasta sem hægt sé að ganga á því tímabili sem um er að ræða og því mikilvægt að ríki og sveitarfélög leiti sameiginlegra leiða til að auka aðhald í rekstri hins opinbera.“

Einnig fylgir mikilvægt skjal sem fylgir áliti tekjustofnanefndar. Ég ætla að fá að lesa það, með leyfi forseta:

„Það eru önnur atriði sem samkomulag er um að verði nánar útfærð í yfirlýsingu um breytt fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Sameiginlega verði unnið að því að efla samráð ríkis og sveitarfélaga um langtímamarkmið í fjármálum hins opinbera, m.a. við endurnýjun samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga.

Sameiginlega verði unnið að því að öll lagafrumvörp og reglugerðir er varða sveitarfélögin á beinan og/eða verulegan hátt verði kostnaðarmetin af viðkomandi ráðuneyti. Reglur þar um taki gildi 1. janúar 2006.

Sameiginlega verði unnið að því að skipa starfshóp til að kanna hvort lög og reglugerðir sem settar hafa verið á undanförnum árum, m.a. til innleiðingar á Evróputilskipunum, hafi að geyma of strangar og kostnaðarsamar kröfur gagnvart sveitarfélögum.

Starfshópurinn leggi fram tillögur um breytingar þar sem við á.

Sameiginlega verði unnið að breytingum á sveitarstjórnarlögum sem miði að því að tryggja vandaða fjárstjórn sveitarfélaga og málsmeðferð varðandi einstakar fjárhagslegar ráðstafanir sveitarstjórna svo og ákvarðanir sveitarstjórnarlaga um hlutverk og skipan eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Í því sambandi verði sérstaklega litið til reynslu Norðurlandanna af eftirliti með sveitarfélögunum.“

Virðulegi forseti. Við erum að ræða um 9,1 milljarð kr. á þremur árum. Við erum að ræða um 1.560 millj. kr. varanlega. Sem landsbyggðarmaður staldra ég við undanþágur frá greiðslu fasteignaskatts, samanber 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga varðandi eignir ríkissjóðs. Við erum að tala um 200 millj. kr. árið 2006, 400 millj. kr. árið 2007 og 600 millj. kr. 2008 og 600 millj. kr. á hverju ári.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef voru 60% af fasteignasköttum á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurborg fær 50%, sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fá önnur 10% og landsbyggðin 40%. Höfuðborgarsvæðið fær 360 millj. en landsbyggðin 240 millj. Ég hefði viljað staldra við og endurskoða þetta mál. Ég tel eðlilegt að mikil ríkisumsvif og flestar stofnanir séu í Reykjavíkurborg en ég tel ekki eðlilegt að hún fái þorrann af þessum tekjum. Fjárhagslegur vandi sveitarfélaganna er ekki á höfuðborgarsvæðinu. Hann er á landsbyggðinni og við þurfum að bregðast við því. Ég er mjög sáttur við allt annað í málinu en þetta finnst mér stóra málið. Við eigum að skoða það og ég mun örugglega koma að því í félagsmálanefnd þar sem formaður er hv. þm. Siv Friðleifsdóttir.

Hér eru mikil tímamót. Það var mikil samstaða í sameiningarnefnd um tillögur sveitarfélaga og almennt er gott hljóð í sveitarstjórnarmönnum um þessi mál. Allir fulltrúar að undanskildum einum ná niðurstöðu í tekjustofnanefndinni en það er ljóst að ekki eru allir sveitarstjórnarmenn sammála. Það er ágreiningur í sveitarstjórnum og misjöfn staða sveitarfélaga. Það eru til lítil sveitarfélög sem eru sterkari en stóra sveitarfélagið sem á að sameinast. Þar telja menn sig vera í góðum gír með reksturinn og allt í lagi með það. Ég tel, miðað við það sem hefur verið rætt í sameiningarnefndinni, að við verðum að virða íbúalýðræðið. Við verðum að láta reyna á að fólkið sem býr á þessum stöðum kjósi um hvort það vilji sameiningu eða ekki og það verður að una þeirri niðurstöðu.

Ég vil að lokum spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort það sé ekki eðlilegt að þetta sem ég ræddi um varðandi fasteignaskattinn verði endurskoðað þannig að ígildi fasteignagjaldsins, 600 millj. kr. sem koma sannarlega frá ríkinu, verði sett beint inn í jöfnunarsjóð í stað þess að höfuðborgarsvæðið fái 60% af fasteignasköttunum samkvæmt þessum tillögum.