131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[15:53]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er oft þannig þegar hv. þm. Guðjón Hjörleifsson kemur í pontu að hann segir opinskátt frá hlutum sem aðrir hvorki nefna né leyfa sér að hugsa. Hv. þingmaður endaði ræðu sína á því að segja að Reykjavík stæði nógu vel og þyrfti ekki neina fjármuni. Sérstaklega boðaði hann að hann mundi koma fram með tillögur um að Reykjavíkurborg mundi einskis njóta í að ríkið færi að greiða fasteignaskatta, eins og tillögur tekjustofnanefndar gera ráð fyrir. Þetta er akkúrat það sem við höfum heyrt þegar við ræðum við sjálfstæðismenn fyrir utan þingsali. Þeim finnst einmitt að Reykjavíkurborg hafi nægar tekjur og það eigi ekki að koma hlutum þannig fyrir að höfuðborgarsvæðið eða Reykjavík fái frekari tekjur. Þar séu víst nógir peningar.

Það er skrýtið með þingmenn stjórnarliða, þegar maður hlustar á þá í þingsal, gamla sveitarstjórnarmenn, að það er eins og þeir hafi verið teknir og heilaþvegnir áður en þeir koma í þingsal, skipt um heila eða forrit í þeim. Það er ótrúlegt að hlusta á gamla sveitarstjórnarmenn halda því fram að tillögur tekjustofnanefndarinnar séu góðar. Ég skil ekki hvernig menn sem þekkja til í rekstri sveitarfélaga geta leyft sér að koma í ræðustól og halda því fram að hér sé um góðar tillögur að ræða sem muni nýtast sveitarfélögunum vel, t.d. að ætla að fjármagna vanda félagslega íbúðakerfisins með því að ganga á varasjóð viðbótarlána sem sveitarfélögin sjálf hafa greitt í. Hvað þá með sveitarfélög sem greitt hafa í þann sjóð og eru ekki í neinum vandræðum með félagslegar íbúðir? Hvers eiga slík sveitarfélög að gjalda, búin að greiða inn í varasjóð viðbótarlána en fá ekki krónu þaðan? Ég óska eftir því að hv. þm. Guðjón Hjörleifsson útlisti fyrir okkur hvar heilaþvottastöðin er sem stjórnarþingmenn ganga í gegnum?