131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[16:07]

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði áðan að 9 milljarðarnir væru ekki allir frá ríkinu komnir. Ég sagði að þetta væru líka tilfærslur, slakanir og verið að koma til móts við aðila, þannig að þetta eru bein og óbein framlög.

Ég sagði að sveitarstjórnarmenn væru mjög skeptískir á að fá fleiri verkefni til sín. Það hefur ágerst með hverjum tíma og ég held að það sé m.a. reynslan af flutningi grunnskólanna. Ég tel það ekki um alla sveitarstjórnarmenn. Ef ég væri í sveitarstjórn mundi ég hika við að taka við heilbrigðismálum sveitarfélaga því það er ekki mikið eftir þegar 77%–80% er orðinn launakostnaðar og annar rekstrarkostnaður lyf og fleira. Menn hafa því ekki svigrúm innan þeirra tekjuramma að auka þjónustuna. Ef menn þurfa að skera niður eru menn að fækka störfum heima í héraði. Ég mundi vera mjög hræddur við það. Ég skal vera mjög hreinskilinn í því.

Svo eru önnur verkefni sem er mjög spennandi að færa yfir til sveitarfélaga. Ég hef reynslu af því varðandi t.d. málefni fatlaðra. Við erum reynslusveitarfélag þar, Vestmannaeyjar. Það hefur gengið mjög vel. Það má ræða um löggæsluna. Það má ræða um aðkomu Vegagerðarinnar og samvinnu um verklegar framkvæmdir. Það er því ýmislegt sem kemur til greina í þessum málum.

Ég tel að það sé mjög gott sem er að gerast varðandi tekjustofnamálin en ég hefði viljað sjá breytingar á fasteignasköttum til framtíðar, að sjá þá renna í annan sjóð en að 60% færu á höfuðborgarsvæðið.