131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[16:54]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel það lýðræðislega niðurstöðu ef Alþingi kæmist að henni hér, að breyta þessu íbúalágmarki úr 50 í eitthvað annað. Ég lagði til að það yrði 1.000. Mér fannst það hins vegar ekki vera nein endanleg tala. En eitthvað varð auðvitað að hafa það. Ég tel hins vegar fráleitt að íbúalágmark eigi að vera 50. Mér finnst það undarleg skilgreining á lýðræðinu að lýðræðið eigi að ná niður að 50. Á það þá ekki að gilda fyrir neðan 50? Eru menn í raun að tala með þeim hætti? Ég vil ekki skilja það þannig. Ég vil hins vegar skilja það þannig að á Alþingi eigi menn að taka ábyrga afstöðu til þess hver sé eðlilegur lágmarksfjöldi íbúa í sveitarfélögum og menn eigi að bera ábyrgð á þeirri ákvarðanatöku í sölum Alþingis. Á meðan lögin eru eins og þau eru núna, þ.e. að íbúafjöldinn sé 50, þá bera þingmenn í sölum Alþingis ábyrgð á þeirri tölu, bera ábyrgð á því að sveitarfélög þurfi ekki að vera fjölmennari en sem svarar 50 íbúum.

Ég tel fáránlegt að fyrirkomulagið á Íslandi í dag sé svona. Það þarf ekki nema einn fatlaðan mann í slíku sveitarfélagi til þess að fjárhagur þess sé í rústum. Og hver hefur niðurstaðan verið í þessum fámennu sveitarfélögum? Þar hafa menn komið t.d. félagslegum vandamálum af sér á önnur sveitarfélög, sótt þjónustu í önnur sveitarfélög og ýtt fólkinu í burtu frá sér sem þeir hafa ekki efni á að standa við bakið á.