131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[17:26]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Magnús Stefánsson hélt ágætisræðu og var lítið pirraður og hófstilltur að vanda. Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem jafnframt er formaður fjárlaganefndar, hvort hann muni svo langt þegar við sátum sl. haust og tókum á móti fulltrúum sveitarfélaganna hverjum á fætur öðrum hvað þeir sögðu okkur í fjárlaganefnd. Ég man það langt að allir þeir fulltrúar meira og minna sem komu á okkar fund voru með í farteski sínu kvartanir yfir því hvernig gengi að reka sveitarfélögin sem þeir voru fulltrúar fyrir. Það var nánast samdóma álit allra þeirra fulltrúa sveitarfélaganna sem komu á fund fjárlaganefndar að sjaldan hefði verið eins erfitt að láta enda ná saman hjá sveitarfélögunum og nú.

Við spurðum í fjárlaganefnd hvort það gæti verið, og gerðum það kerfisbundið við alla sem komu og kvörtuðu yfir þessu, að einhver uppáfallandi óvænt atvik væru að valda því að fjárhagur þeirra væri lakari en áður og því svöruðu allir meira og minna að svo væri ekki. Almenn skilyrði til tekjuöflunar og kröfur um þjónustu væru orðin með þeim hætti að það næðist alls ekki að láta enda ná saman hjá sveitarfélögunum og við höfum séð það í ársreikningum sveitarfélaga ár eftir ár. Þess vegna finnst mér hálfundarlegt þegar hv. þingmaður segir að tillögurnar frá tekjuskiptanefnd séu ágætar því þær ná mun skemur en þarf til að sveitarfélögin nái að reka sig með skikkanlegum hætti frá ári til árs.

Ég þarf eiginlega að spyrja hv. þingmann hvað sé skikkanlegt eða ágætt í tillögunum því að ég kem satt að segja ekki auga á það. Ég held að hv. þingmaður hafi líka verið á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga þar sem sveitarstjórnarmenn lýstu því yfir hvað þyrfti til, hvaða kröfur þeir gerðu í samningunum við ríkið. Ef hann hefur verið þar og hlýtt á þá menn hlýtur hann að átta sig á því af hverju einhver pirringur er í málinu núna af okkar hálfu.