131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[17:28]

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður fór yfir sat ég í fjárlaganefnd í haust þar sem fulltrúar sveitarfélaganna komu og hittu fjárlaganefnd út af ýmsum málum. Þar kom fram það sem ég a.m.k. vissi, að hjá mörgum sveitarfélögum hefur gengið mjög illa að reka sveitarsjóðina. Ég kom einmitt inn á það í máli mínu að aðstæður sveitarfélaga eru mjög mismunandi og hjá mörgum er mjög erfitt að ná endum saman. Það liggur alveg fyrir, það þarf ekkert að fara í einhvern spurningaleik út af því máli.

Ég tel hins vegar, án þess að ég ætli að fara út í það í smáatriðum, að tillögurnar sem liggja fyrir frá tekjustofnanefnd geri í heild sinni ráð fyrir töluvert miklum fjárhagslegum bata fyrir sveitarfélögin, það liggur alveg fyrir. Menn geta hins vegar alltaf deilt um hvað er nóg og hvað er ekki nóg. Það er alveg hugsanlegt, ég ætla ekkert að taka fyrir það, að þetta dugi ekki til hjá sumum sveitarfélögum það sem kemur út úr þessu en hjá öðrum sveitarfélögum dugi það mætavel. Það er bara lýsandi fyrir stöðuna, en í það heila tekið tel ég að tillögurnar sem fyrir liggja séu í heild sinni ágætar fyrir sveitarfélögin og ég vonast auðvitað til þess að þær nýtist sem flestum og vonandi öllum sveitarfélögunum til að standa undir rekstri sínum.

Svo er líka spurning: Með hvaða hætti eru sveitarfélögin rekin? Ég ætla ekki að halda því fram að menn séu ekki að sinna verkefnum sínum með sóma í að reka sveitarfélögin, en ég held að menn þurfi að fara ofan í það og það á náttúrlega við um sveitarfélögin, ríkið, heimilin og fyrirtækin, að veldur hver á heldur. Menn þurfa því að vera, ef ég má orða það þannig, á tánum í þeim rekstri eins og í öllu öðru.